3.12.2022 10:39

Afbrotavarnir efldar

Áréttað er mikilvægi þess að lögregla geti gripið fyrr inn í atburðarás og þannig fyrirbyggt að framin séu alvarleg afbrot.

Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra hefur lagt fram frumvarp til breytinga á lögreglulögunum til að efla afbrotavarnir.

Í greinargerð frumvarpsins segir að efla þurfi frumkvæðisvinnu lögreglu sem birtist í upplýsingaöflun og greiningu upplýsinga. Markmið frumvarpsins er að skilgreina betur og auka heimildir lögreglu á þessu sviði vegna þess að afbrotamynstur hefur breyst, hætta á hryðjuverkum vaxið og útbreiðsla alþjóðlegrar skipulagðrar brotastarfsemi aukist. Verði frumvarpið að lögum geta löggæsluyfirvöld brugðist við og gripið til aðgerða áður en einstök brot eru framin.

Áréttað er mikilvægi þess að lögregla geti gripið fyrr inn í atburðarás og þannig fyrirbyggt að framin séu alvarleg afbrot. Í því skyni er leitað eftir því að lögregla fái heimild til að nýta upplýsingar sem hún býr yfir og aflar til greiningar við mat á aðsteðjandi hættu. Í öllum umræðum um leiðir til að auka öryggi almennra borgara og ríkja er lögð áhersla á að það sem á ensku er kallað situational awareness og þýða má sem ástandsmat.

Hugtakið er skilgreint á þann veg að menn átti sig á hvar þeir eru staddir og hvað sé að gerast í kringum þá. Í þessu felst að einstaklingar og stofnanir sýni mikla árvekni og séu vel upplýstar til að þær geti tekið viðeigandi ákvarðanir. Þegar um stofnanir eins og lögreglu er að ræða snýst þetta um að beita mannafla rétt í ljósi þess sem er að gerast.

SharkUndanfarin misseri höfum við kynnst því hve ástandsmat ræður miklu um ákvarðanir í sóttvörnum. Í þeim efnum var gengið mjög langt í upplýsingaöflun um ferðir og líðan einstaklinga og þeim skipað í einangrun sem taldir voru hættulegir umhverfi sínu eftir að hafa verið skyldaðir í sýnatöku.

Þegar um varnir í netheimum er að ræða er lögð mjög rík áhersla á ástandsmat og nauðsyn þess að greina spilliforrit eða vírusa sem fyrst svo að þeir valdi ekki tjóni eða nýta megi forritin til gíslatöku.

Í frumvarpi dómsmálaráðherra er lögreglu veitt sérstök heimild til að hafa eftirlit með einstaklingum sem hafa tengsl við skipulögð brotasamtök eða sem sérgreind hætta stafar af fyrir öryggi ríkisins eða almennings, eins og segir í greinargerð frumvarpsins.

Í greinargerðinni er áréttað að heimildirnar til lögreglu til að sinna afbrotavörn- um, einkum í þágu öryggis ríkisins, eru mun takmarkaðri en annars staðar á Norðurlöndum. Aðeins er kveðið á um þrönga heimild til að hafa eftirlit með tilteknum einstaklingum að uppfylltum nánari skilyrðum auk þvingunaraðgerðar sem undantekningarlaust krefst undangengins dómsúrskurðar. Heimildirnar beinast þannig að mjög afmörkuðum hópi en ekki hinum almenna borgara að neinu leyti. Öryggisstofnanir á Norðurlöndum og öðrum Vesturlöndum hafa hins aðgang að miklu magni lýsi- og fjarskiptagagna sem snúa að öllum almenningi.

Píratar eru þegar teknir til við að gera þetta frumvarp tortryggilegt. Nú heimta þeir að formið sé skýrt og afdráttarlaust, eins og vitað er vilja þeir að strangar reglur og hömlur gildi um aðra en ekki þá sjálfa.