24.10.2020 15:54

Af peningaþvættislistanum

Það eru þó ekki allir sem búa til „gráa lista“ og gefa þar með alþjóðlega viðvörun um að hættulegt sé að eiga viðskipti við viðkomandi ríki eða fyrirtæki innan þess.

Því var réttilega fagnað í gær (23. október) og enn á ný í dag að Ísland er komið af svonefndum „gráum lista“ alþjóðlegu Fjármálaaðgerðasveitarinnar (e. Financial Action Task Force (FATF) sem beitir sér gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka.

Árið 2017 fór fram úttekt af hálfu FATF á vörnum landsins gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Vorið 2018 var tilkynnt að varnir Íslands væru ófullnægjandi og Ísland var því sett í svonefnda eftirfylgni hjá sérstökum vinnuhópi innan FATF um málefni ríkja þar sem vörnum í þessum málaflokki er verulega ábótavant. Íslandi var gefinn eins árs frestur til úrbóta.

Þrátt fyrir að íslensk stjórn nýttu frestinn til að fara að óskum eftirlitsveitarinnar dugði tíminn ekki til nægilegra úrbóta. Í október 2019 var Ísland sett á gráa listann og aðgerðaáætlun samþykkt af hálfu FATF sem íslenskum stjórnvöldum var gert að framkvæma.

Teitur Már Sveinsson, lögfræðingur, formaður stýrihóps um aðgerðir gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka, segir í Morgunblaðinu í dag að strax hafi verið brugðist við tilmælum FATF frá því í apríl árið 2017. Það hafi náðast „undraverður árangur á mjög skömmum tíma“.

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir segir í Morgunblaðinu í dag:

„Vert er að fagna á þessum tímamótum og þakka öllum þeim sem lagt hafa hönd á plóg. Um leið er mikilvægt að draga réttan lærdóm af þessari reynslu. Hún er áminning um að við þurfum að gera betur. Það að lenda á lista sem þessum hefur gífurleg áhrif á íslenskt atvinnulíf, ekki aðeins fjármálafyrirtæki heldur nær öll fyrirtæki sem stunda alþjóðleg viðskipti.“

Í leiðara Morgunblaðsins í dag segir:

„Það er vissulega til fyrirmyndar að gripið sé til aðgerða gegn peningaþvætti og fjármögnun hryðjuverka. Peningaþvætti er gríðarlega umfangsmikið í heiminum.[...] Það er hins vegar ljóst að í samhengi við gegndarlaust peningaþvætti í heiminum var sá gerningur að setja Ísland á gráa listann eins og að veita stöðumælasekt í miðri borgarastyrjöld.“

Shutterstock_116846692Allt er þetta satt og rétt. Óviðunandi er að þannig sé staðið að málum að Ísland lendi á alþjóðlega skammarlista sem þessum. Skyldan við að standa rétt að málum vegna alþjóðlegra skuldbindinga nær til fleiri þátta en peningaþvættis. Það eru þó ekki allir sem búa til „gráa lista“ og gefa þar með alþjóðlega viðvörun um að hættulegt sé að eiga viðskipti við viðkomandi ríki eða fyrirtæki innan þess.

Miðað við hvernig stundum er brugðist við ágreiningi um lögskýringar varðandi framkvæmd EES-samningsins og sagt að jafnvel fullveldinu stefnt í hættu er undarlegt að enginn telji vegið að fullveldinu með aðild að FAFT og krefjist þess að Ísland segi sig frá slíkum afskiptum. Hvað ræður?

Sjá má fyrir sér að Íslendingar lendi á hættulegum lista skelli íslensk yfirvöld skollaeyrum við viðvörunum um viðskipti við Huawei vegna 5G-farkerfisins. Vandræði í því efni eru skráð á vegginn. Það er kannski í lagi að taka meiri áhættu vegna grunnvirkja í farkerfum landsmanna en vegna peningaþvættis?