25.6.2019 10:33

Aðstaða bætt fyrir flugherafla

Engin áform eru um að breyta eðli aðstöðu fyrir Bandaríkjaher á Keflavíkurflugvelli heldur uppfæra hana og stækka til að hreyfanlegur flugherafli geti haft afnot af henni.

Nýtt hugtak „færanleg herstöð“ kom til sögunnar í hádegisfréttum ríkisútvarpsins laugardaginn 22. júní þegar sagði:

„Í fjárhagsáætlun Bandaríkjahers fyrir árið 2020, sem kom út í mars [2019], kemur fram að herinn ætlar í framkvæmdir á Íslandi fyrir um sjö milljarða króna. Í skýringum með áætluninni kemur fram að framkvæmdirnar séu liður í að setja upp í Evrópu svokallað ECAOS, sem er í raun færanleg herstöð sem hægt er að setja upp með hraði ef þörf krefur. Samkvæmt svari frá Sveini H. Guðmarssyni, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins, er ekki áætlað að slíkt ECAOS verði staðsett hér á landi.“

Eftir að Rússar innlimuðu Krímskaga og sendu herafla inn í Úkraínu árið 2014 var hrundið af stað áætlun af hálfu Bandaríkjastjórnar undir forsæti Baracks Obama sem valið var heitið European Deterrence Initiative (EDI), á íslensku má kalla þetta evrópska fælingarfrumkvæðið. Markmiðið var og er að efla styrk Bandaríkjahers í Evrópu á nýjan leik til að fæla Rússa frá að beita nágranna sína hervaldi.

770033Þórður á mbl.is tók þessa mynd af orrustuþotu á Keflavíkurflugvelli.

Bandaríkjaþing hefur veitt fé til EDI síðan og í áætlun bandaríska varnarmálaráðuneytisins um ráðstöfun á þessu fé á fjárlagaárinu 2020 er gert ráð fyrir fjárveitingum til þess sem á ensku er lýst sem rotational force deployments, það er til tímabundinnar dvalar herafla. Þessu höfum við Íslendingar kynnst undanfarin ár. Loftrýmisgæsla undir hatti NATO frá Keflavíkurflugvelli er framkvæmd á þennan hátt. Sömu sögu er að segja um komu bandarískra kafbátaleitarflugvéla hingað. Í báðum tilvikum er um tímabundna dvöl að ræða en ekki fasta viðveru.

Fyrir utan að veita fé í þessu skyni undir merkjum EDI er því einnig ráðstafað til að standa undir kostnaði við framkvæmdir sem taka mörg ár og þar á meðal við það sem lýst er með þessum orðum á ensku Air Force-European Contingency Air Operations Sets (ECAOS). Þarna er um að ræða mannvirki sem nýtast bandaríska flughernum þurfi hann á þeim að halda vegna aðgerða sinna. Þetta er það sem fréttastofan kallar „færanlega herstöð“. Er það réttnefni? Eru ekki mannvirkin, stöðin, alltaf til staðar en það sem er færanlegt er heraflinn?

Þegar litið er til fjárveitinga vegna aðstöðunnar á Keflavíkurflugvelli undir merkjum EDI stendur þetta: Beddown Site ($7.0 million), Hot Cargo Pad ($18.0 million) og Expanded Parking Apron ($32.0 million).

Í fréttinni á ruv.is er þetta íslenskað á þennan hátt: „ Sjö milljónir dollara fara til uppbyggingar færanlegrar aðstöðu fyrir herlið, 32 milljónir dollara fara í stækkun flughlaðs fyrir herinn og átján milljónir dollara fara til uppbyggingar á svæði til meðhöndlunar hættulegs farms, svo sem vopnabúnaðar (Dangerous Cargo PAD).“

Þarna er beddown site íslenskað sem „færanleg aðstaða fyrir herlið“. Rétt lýsing er að þetta er aðstaða sem færanlegt herlið getur notað sé þess talin þörf, það er svipuð aðstaða og er nú fyrir hendi á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli. Í fréttinni verður hot cargo pad dangerous cargo pad. Innan hersins nota menn orðin hot cargo fyrir skotfæri, sprengjur og önnur hættuleg efni. Vegna hættu sem kann að skapast við meðferð þessa farms er mælt fyrir um sérstakt svæði fyrir vélar með hann. Slíkt svæði er þegar fyrir hendi á Keflavíkurflugvelli. Annaðhvort á að endurbæta svæðið eða stækka eins og flughlöðin.

Hvaða ályktun má draga af því sem hér hefur verið sagt?

Engin áform eru um að breyta eðli aðstöðu fyrir Bandaríkjaher á Keflavíkurflugvelli heldur uppfæra hana og stækka til að hreyfanlegur flugherafli geti haft afnot af henni innan öryggissvæðis vallarins. Ekkert í þessum fjárveitingum til flughersins ber þess merki að ætlunin sé að hér sé „færanleg herstöð“. Hingað kann hins vegar að koma „færanlegur herafli“ og njóta betri aðstöðu en nú er fyrir hendi.