11.7.2024 10:34

Aðhaldslausir grunnskólar

Með flutningi grunnskólans var stefnt að því að færa stjórn hans og daglegt starf nær þeim sem njóta þjónustu skólanna og virkja foreldra til sem mestrar aðildar að innra starfi skólanna.

Bæjarstjórarnir í Kópavogi og Hafnarfirði, sjálfstæðiskonurnar Ásdís Kristjánsdóttir og Rósa Guðbjartsdóttir, stíga fast til jarðar í skólamálum. Þær viðurkenna báðar að staðan í skólakerfinu sé alvarleg og ekki verði unað við óbreytt ástand.

Grunnskólarnir hafa nú verið 28 ár í umsjá sveitarfélaganna. Þeir eru reknir á þeirra ábyrgð en aðild ríkisvaldsins er fagleg með útgáfu námskrár og námsefnis auk þess að standa að menntun kennara á háskólastigi.

1292468

Með flutningi grunnskólans var stefnt að því að færa stjórn hans og daglegt starf nær þeim sem njóta þjónustu skólanna og virkja foreldra til sem mestrar aðildar að innra starfi skólanna.

Útgjöld til grunnskólastarfs hafa aukist jafnt og þétt. Áður var jafnan vitnað til þess að skólakerfið væri undirfjármagnað í OECD samanburði. Nú heyrist lítið talað um slíkan samanburð enda er Ísland meðal efstu útgjaldaríkja, ef ekki efst.

Á hinn bóginn vekur slakur árangur nemenda í PISA-könnunum sem framkvæmdar eru undir handarjaðri OECD jafnan miklar umræður. Þær skila þó ekki eins miklum framförum meðal nemenda eins og kvartanir undan fjárskortinum forðum.

Í samtali við Morgunblaðið í dag (11. júlí) segir Rósa Guðbjartsdóttir að það hafi verið „mikil mistök að leggja af samræmd próf á sínum tíma. Þá hafi skólarnir ekki samanburðinn lengur“. Hún bætir við:

„Það er auðvitað líka alveg með ólíkindum að skólar fái ekki birtar sínar niðurstöður úr PISA-könnuninni og ekki einu sinni sveitarfélögin. Það er auðvitað alveg fráleitt að sú sé staðan, að við þolum ekki þennan samanburð. Við verðum að hafa samanburð.“

Þarna víkur Rósa að grundvallaratriði sem hvarf úr skólaumræðum eftir að tókst að loka fyrir alla upplýsingagjöf um stöðu einstakra skóla og sveitarfélaga. Þessar upplýsingar voru birtar fyrstu árin eftir að grunnskólinn var fluttur frá ríkinu. Í þeim felast leiðbeiningar fyrir foreldra og nemendur og aðhald fyrir skólastjórnendur og kennara.

Þróunin hefur orðið sú að síðarnefndi hópurinn tók skólana í sínar hendur og foreldrum er sagt að þeir hafi hvorki þekkingu né vit á því sem gerist innan veggja skólanna enda hafi þeir ekki hlotið uppeldisfræðilega kennaramenntun.

Rósa telur það mikil mistök að leggja af samræmd próf á sínum tíma. Þá hafi skólarnir ekki samanburðinn lengur.

Ásdís Kristjánsdóttir segist ætla að axla ábyrgð sem bæjarstjóri Kópavogs og bregðast við vanda grunnskólakerfisins. Óheillaþróun hafi hafist árið 2009. Enginn marktækur mælikvarði sé á námsárangur barna um leið og einkunnaverðbólga virðist ríkja víða sem sé ekki sanngjarnt fyrir nemendur. Hún hreyfir einnig því sama og Rósa að sveitarfélögin eigi að fá aðgang að PISA-gögnum til að rýna þau.

Fræðingar og kennarar tóku grunnskólann í sínar hendur, afnámu upplýsingamiðlun, lögðu niður samræmd próf sem veittu þeim aðhald ekki síður en nemendum. Nú er komið að tímamótum. Megi Ásdísi og Rósu vel farnast!