21.5.2024 11:04

Aðförin að málfræðilegu kynhlutleysi

Á meðan alþingi og þeir sem framfylgja málstefnu þess láta ríkisútvarpið afskiptalaust í þessu efni má líta þannig á að þetta samrýmist opinberri stefnu.

Á nýlegum fundi um allt annað málefni en íslenska tungu fékk ég fyrirspurn frá fyrrverandi þingmanni Miðflokksins um skoðun mína á grein sem Vala Hafstað, leiðsögumaður og skáld, skrifaði á Vísi 6. maí undir fyrirsögninni: Útrýming mannsins á RÚV. Greinin vakti mikla athygli og dreifðu henni margir á Facebook.

Sakar Vala fréttamenn ríkisútvarpsins um að efna til misskilinnar jafnréttisbaráttu sem „felst í því að útrýma orðinu maður hvenær sem færi gefst“. Þeim hafi tekist „ásamt mörgum valdhöfum og athyglisþyrstum álitsgjöfum (sem þrá að þykja víðsýnir og jafnréttissinnaðir) tekist að innleiða orð á borð við starfsfólk, vísindafólk, björgunarfólk, verkafólk, iðnaðarfólk, flóttafólk o s.frv. í stað starfsmanna, vísindamanna, björgunarmanna, verkamanna, iðnaðarmanna og flóttamanna“.

Á fundinum sagðist ég sömu skoðunar og Vala Hafstað sem sagði í lok greinar sinnar: „Látum nýlenskuhersveitirnar ekki komast upp með að höggva mann og annan úr orðaforða okkar.“

Ég sagði eitthvað á þá leið að á meðan alþingi og þeir sem framfylgdu málstefnu þess létu ríkisútvarpið afskiptalaust í þessu efni mætti líta þannig á að þetta samrýmdist opinberri stefnu.

YouTube-Thumbnail-53-1024x576Vala Hafstað og Stefán Eiríksson útvarpsstjóri (samsett mynd DV.is).

Í Morgunblaðinu í dag (21. maí) segir frá fundi blaðsins með Katrínu Jakobsdóttur forsetaframbjóðanda á Akureyri að kvöldi 20. maí og þar stendur: „Af öðrum málum á fundinum sagði hún [Katrín] skipta miklu máli að varðveita íslenska tungu, menningu og sögu. Aðspurð hvort hún myndi nota kynhlutlaust málfar eða hefðbundið sagði hún að hún myndi nota hvort tveggja.“

Daginn eftir að fyrrverandi þingmaður Miðflokksins spurði mig ofangreindrar spurningar lagði Bergþór Ólason, þingmaður flokksins, sambærilega spurningu fyrir Lilju Dögg Alfreðsdóttur menningarráðherra á þingi; hver væri afstaða ráðherrans til kynlausrar þróunar íslenskunnar. Ráðherrann svaraði spurningunni almennum orðum sem fyrirspyrjandi sagðist þó ekki geta skilið öðruvísi en að ráðherranum hugnaðist þróunin ekki. Bergþór spurði þá hvort ráðherrann ætlaði að gera eitthvað í málinu t. d. gagnvart ríkisútvarpinu. Ráðherrann sagði að þetta væri „frekar ný þróun“ og hún hallaðist að því að það væri „brýnt að fara eftir settum reglum“.

Allt var því frekar óljóst um skoðun ráðherrans og áform mánudaginn 13. maí. Þriðjudaginn 21. maí hefur afstaða ráðherrans skýrst því að hún sagði að morgni þess dags við Bylgjuna að það væri algert gáleysi að hverfa frá málfræðilegu kynhlutleysi og „breyta málfræði tungumálsins“ án umræðu. Ætlaði hún að funda með ríkisútvarpinu um „nýlenskuna“ og notkun blaðamanna stofnunarinnar á henni.

Sé ætlun menningarráðherra að tryggja málfræðilegt kynhlutleysi í fréttum ríkisútvarpsins verður örugglega fyrst krafist samtals um umboð ráðherrans til að heimta það. Í þessu efni dugar líklega ekkert minna en ákvörðun alþingis sem á síðasta orðið um opinbera málstefnu. Lög hafa verið sett af minna tilefni.