6.4.2025 10:49

Aðför að sjálfstæðu fjarnámi

Ástæðan fyrir því að borgaryfirvöld ákveða nú að fara þessa leið er pólitísk. Vinstrisinnunum í borginni er sjálfstæður rekstur einkaaðila þyrnir í augum. Þrengt er að sjálfstæðu skólastarfi, hvað sem það kostar.

Skóla- og frístundaráð Reykjavíkur samþykkti 24. mars tillögu um að skóla- og frístundasvið borgarinnar hæfi tilraunaverkefni um fjarkennslu í grunnskólum Reykjavíkurborgar vegna nemenda með lögheimili í Reykjavík.

Tillaga kom frá sviðsstjóra skóla- og frístundasviðs um að sviðinu verði heimilað að hefja tilraunaverkefni um fjarkennslu í grunnskóla Reykjavíkurborgar vegna nemenda með lögheimili í Reykjavík. Tilraunaverkefnið hefjist í upphafi skólaársins 2025-2026 og á að standa til þriggja ára. Fyrirvari er um að leyfi mennta- og barnamálaráðherra.

Skóla- og frístundaráðsfulltrúar Samfylkingarinnar, Pírata, Flokks fólksins og Vinstri grænna fögnuðu tilraunaverkefninu með sérstakri bókun. Tilraunin er einkum fyrir nemendur „sem búa tímabundið erlendis, nemendur sem hafa átt erfitt uppdráttar félagslega, nemendur með skólaforðun, nemendur sem orðið hafa fyrir einelti eða eiga áfallasögu, langveika nemendur og nemendur í fíkniefnaneyslu eða með sögu um slíkt,“ segir í bókuninni.

Það er talið verkefninu til framdráttar að nýting grunnskóla borgarinnar skapi nemendum „návígi við þá þjónustu“ sem skólinn og tengsl verði „við annað skóla- og frístundastarf Reykjavíkurborgar“. Þessi rök eru ekki sannfærandi miðað við eðli fjarkennslunnar og réttlæta á engan hátt aðförina sem með þessari ákvörðun er gerð að þjónustunni sem Ásgarðsskóli hefur veitt nemendum í grunnskólum Reykjavíkur sem stunda fjarnám.

Screenshot-2025-04-06-at-10.47.23Skjámynd af ruv.is

Í samtali við Morgunblaðið 31. mars sagðist Kristrún Lind Birgisdóttir, skólastjóri og eigandi Ásgarðsskóla, ekki skilja af hverju Reykjavíkurborg hefði tekið þessa ákvörðun. Vill hún halda áfram samstarfi Ásgarðsskóla og borgarinnar. Þá tekur hún fram að yrði þetta verkefni að veruleika væri það sérstaklega slæmt fyrir börn sem eru þegar komin á endastað í kerfi borgarinnar.

Af bókun áheyrnarfulltrúa grunnskólakennara á fundi skóla- og frístundaráðs má ráða að mörgum mikilvægum faglegum spurningum sé ósvarað um framkvæmd borgarinnar á þessari samþykkt fyrir utan að skýra þurfi hvernig á „að framkvæma fjarkennslu/fjarnám en samkvæmt kjarasamningi sveitarfélaga og Félags grunnskólakennara ber að greiða kennara 50% álag á hverja kennslustund í fjarkennslu.“

Ástæðan fyrir því að borgaryfirvöld ákveða nú að fara þessa leið er pólitísk. Vinstrisinnunum í borginni er sjálfstæður rekstur einkaaðila þyrnir í augum. Þrengt er að sjálfstæðu skólastarfi, hvað sem það kostar.

Það er til marks um umpólunina á Flokki fólksins undanfarna mánuði að nú kemur það í hlut Helgu Þórðardóttur, borgarfulltrúa flokksins, sem formanns skóla- og frístundaráðs að ganga þessara erinda sósíalista, pírata og vinstri grænna með sérstakri blessun Samfylkingarinnar.

Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra Flokks fólksins, gerist svo handlangari vinstrimennskunnar og leggur blessun sína yfir aðförina að þessu vel heppnaða einkaframtaki í skólamálum sem nýtur trausts bæði nemenda og foreldra. Sætti ráðherrann sig við það sem birtist í ofangreindri bókun sem fagleg rök staðfestir það aðeins pólitískt eðli málsins.