23.6.2017 9:49

Aðför að reiðufé hafin

Stórir seðlar eru hættulegri en litlir vegna þess að auðveldara er að nota þá í ólögmætum tilgangi.

Fyrir nokkrum árum birti Benedikt Jóhannesson, núverandi fjármálaráðherra, útreikninga sem lutu að því að fjárhagslega hagkvæmara væri að nota ensku en íslensku. Þegar umræður mögnuðust um málið sagðist Benedikt aldrei hafa gert tillögu í þessa veru, fullyrðingar um það stæðust ekki, þær væru óvinabragð í sinn garð.

Fimmtudaginn 22. júní kynnti Benedikt Jóhannesson niðurstöður tveggja starfshópa sem hafa síðan í janúar rannsakað annars vegar milliverðlagningu í utanríkisviðskiptum, og hins vegar skattaundanskot og skattsvik. Af því tilefni sagði ráðherrann við ríkisútvarpið:

„Það eru ekki margir sem eru með 10 þúsund króna seðla í vasanum. Engu að síður þá eru það helmingurinn af reiðufé í umferð samkvæmt tölum seðlabankans. Þannig að þá spyr maður, hverjir eru það sem eru með alla þessa tíu þúsund kalla. Með því að minnka seðlana sem eru í umferð þá verður óþægilegra að nota þá. En meira máli skiptir hitt að laun séu greidd rafrænt inn á bankareikninga og hitt atriðið, að það sé ákveðið hámark á því hvað megi borga mikið í reiðufé.“

Boðaði ráðherrann frumvarp á þingi næsta haust um málið, ýtt skuli undir rafrænar greiðslur og stuðlað að þeim með því að taka fyrst tíu þúsund krónu seðilinn og næst fimm þúsund krónu seðilinn úr umferð. Stórir seðlar eru hættulegri en litlir vegna þess að auðveldara er að nota þá í ólögmætum tilgangi. 


Seðlabanki Íslands ákveður verðgildi peningaseðla. Þegar 10.000 kr. seðillinn kom til sögunnar haustið 2013 sagði bankinn að hann gerði greiðslumiðlun á Íslandi liprari og hagkvæmari, meðal annars með því að fækka seðlum í umferð. Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði í ræðu við athöfn til að fagna nýja seðlinum að engin áform væru á því stigi um stærri seðil. Nærtækara væri að taka til skoðunar mögulegar breytingar varðandi verðminnstu myntirnar og jafnvel skoða hvort leysa ætti 500 króna seðil af hólmi með mynt. Engar ákvarðanir hefðu þó verið teknar hvað þessi atriði varðar. 

Þorkell Sigurlaugsson var formaður starfshóps fjármálaráherra um skattaundanskot og skattsvik. Hann hefur snúist til varnar vegna harðrar gagnrýni á tillöguna varðandi reiðuféð og segir meðal annars á Facebook:

„Þetta með 10.000 krónur er ekki aðalatriðið heldur allt hitt. Fólk getur alltaf notað þúsund krónu seðla. [...] Það mun líka koma annað kort í mínum huga eða innistæðureikningur í seðlabanka sem allir eiga að fá við fæðingu eins og kennitölu. Verða strax kapítalistar í jákvæðum skilningi þess orðs. [...] Reynum að hugsa svolítið kreatíft. Peningur er pappír, þjóðfélagið er að fara meira í rafrænt. Við skrifumst á rafrænt o.s.frv. Þegar við verðum komnir á hjúkrunarheimili og foreldrar okkar dánir þá munum við hlæja að því af hverju allt varð vitlaust út af einni hugmynd í skýrslu um skattsvikamál. En þetta lýsir þjóðfélaginu og umræðunni.“

Ástæðulaust er að skella skuldinni á þjóðfélagið allt eða umræðuna. Viðbrögðin eru svar við því hvernig þessi mál voru kynnt af ráðherranum fimmtudaginn 22. júní. Kynningin skaut niðurstöðu starfshóps Þorkels í kaf, hvorki þjóðfélagið né umræðan.

Frá því að útreikningarnir um að hagkvæmara væri að nota ensku en íslensku birtust hefur enginn hreyft því máli opinberlega. Ríkisstjórnin hefur þvert á móti boðað stórátak til að styrkja íslenskuna í heimi gervigreindar. Hvort talið um að banna reiðufé verði til að skýrsla Þorkels og félaga rykfalli uppi í hillu kemur í ljós.