Aðferðir í veirustríði breytast
Fjarvera heilbrigðisstarfsfólks vegna einangrunar líklega meira vandamál fyrir heilbrigðisþjónustuna en að sinna þeim fjölda sem þurfa meðferð vegna veirunnar.
Bretlandi segir NHS, opinbera heilbrigðiskerfið, að þeir sem fá COVID eigi að dveljast 10 daga í einangrun. Bresk stjórnvöld með heilbrigðisráðherrann í broddi fylkingar segja hins vegar að flestir geti stytt einangrunina niður í eina viku eða skemmri tíma svo framarlega sem þeir taki sjálfir eigin sýni sem sanni að þeir séu neikvæðir.
NHS sætir harðri gagnrýni margra þingmanna og forráðamanna í bresku atvinnulífi fyrir að setja almenningi of strangar skorður. Bent er á að það skýrist æ betur að ómíkron-afbrigðið valdi ekki alvarlegum veikindum eða leiði til dauðsfalla. Mestum skaða valdi veiran nú með þeim truflunum á daglegu lífi fólks og atvinnustarfsemi. Einn af stjórnendum NHS sagði að fjarvera starfsfólks vegna einangrunar yrði líklega meira vandamál fyrir heilbrigðisþjónustuna en að sinna þeim fjölda sem þyrfti meðferð vegna veirunnar.
Frá dönsku sjúkrahúsi.
Hér standa stjórnendur heilbrigðisþjónustunnar frammi fyrir þessum sama vanda. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir segir ákvarðanir ekki teknar nema að vel athuguðu máli og með vísan til reynslu annarra þjóða. Þess vegna eru nú vangaveltur um hvort sóttvarnakröfum verði breytt hér með því að stytta dvöl í einangrun jafnvel niður í fimm daga eins og gert var 28. desember í Bandaríkjunum.
Bandaríska heilbrigðiskerfið er víða mjög illa á vegi statt vegna skorts á mannafla fyrir utan hve fjölmennur hópur fólks (65 milljónir) vill ekki þiggja bólusetningu. Mörg dómsmál eru þar í gangi gegn stjórnvöldum vegna boða og banna. Þá eru viðbrögð við farsóttinni einnig stórpólitískt deilumál. Joe Biden forseti á í vök að verjast vegna þess hve margir hafa látist á hans vakt í Hvíta húsinu. Í byrjun janúar 2022 tekur hæstiréttur Bandaríkjanna fyrir mál þeirra sem sætta sig ekki við ákvarðanir stjórnvalda.
Í dag (29. desember) staðfesti Héraðsdómur Reykjavíkur ákvörðun sóttvarnalæknis um að fimm einstaklingar í sömu fjölskyldunni skyldu sæta einangrun í tíu daga vegna COVID-smita. Fyrir dómi var þess krafist að einangrun fólksins yrði aflétt á þeim forsendum að þau væru einkennalaus og s PCR-próf væru ekki nægjanlega áreiðanleg til að svipta fólk frelsi.
Hvort reynir á slík mál á fleiri dómstigum hér kemur í ljós en réttar- og stjórnmálaágreiningur verður áfram hér eins og annars staðar. Allt sem gerist erlendis endurspeglast á einn eða annan hátt hér. Allar þjóðir glíma við veiruna. Sumir sérfræðingar segja að hún uni sér ekki hvíldar fyrr en við höfum öll fengið hana.
Í Danmörku hefur almenningur nú minni áhyggjur af því að veiran ógni dönsku samfélagi en fyrir jól. Þetta birtist í könnun á vegum háskólans í Árósum. Segir stjórnandi hennar að um greinilega og áhugaverða viðhorfsbreytingu sé að ræða. Þegar smittölur hækkuðu í nóvember hækkaði óttastuðull almennings við veiruna í 55% en nú er hann 50% þrátt fyrir fjölgun smita undanfarna daga. Þar sem talið er að heilbrigðiskerfið ráði við smitbylgjuna minnkar óttinn.
Sé vandi heilbrigðiskerfisins skortur á starfsfólki en ekki fjöldi veikra er ráðið varla að leggja þungar hömlur á þá sem sýna jákvæð einkenni án veikinda.