18.5.2022 9:27

Að veðja á hugvitið

Hugvitinu á ekki aðeins að beita til að efla útflutningsgreinar heldur einnig til að takast á við kerfislægan vanda í opinbera stjórnkerfinu sjálfu og í samskiptum launþega og atvinnurekenda.

Nýsköpunarvika hófst formlega mánudaginn 16. maí á fundi sem Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, efndi til í Grósku í Vatnsmýrinni. Salurinn var þéttskipaður og máli ráðherrans var fagnað með dynjandi lófataki þegar hún kynnti nýtt ráðuneyti sem starfað hefur undir hennar stjórn í 104 daga.

Kynninguna má einnig nálgast hér á netinu. Við skipulag innra starfs nýja ráðuneytisins hefur verið horfið frá hefðbundinni skiptingu ráðuneyta í skrifstofur um sérgreinda málaflokka. Þar eru tvær skrifstofur: önnur fer með stjórnsýsluna, fjármálin og dagleg samskipti við undirstofnanir og hin fer með framtíðarsýn og stefnumörkun. Nýtt verklag er innleitt með teymisvinnu og lotum.

CGB_IIW_Aslaug_WebRes-07Frá fundi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur ráðherra í Grösku 16. maí 2022.

Stjórnsýsluna verður að færa í nýjan ramma og taka upp nýja starfshætti þótt ekki sé nema vegna markmiðanna sem sett eru með stafrænni stjórnsýslu. Dómsmálaráðherra hefur boðað ný skref í anda stafrænnar stjórnsýslu við skipulag yfirstjórnar stofnana sem starfa á vegum hans ráðuneytis um land allt. Miðlæg stafræn stjórnsýsla getur auðveldað þjónustustofnunum víðs vegar um landið að afgreiða erindi þeirra sem þær þjóna hver á sínum stað.

Nýsköpunin undir stjórn Áslaugar Örnu snýr ekki aðeins að því sem gerist utan veggja stjórnarráðsins heldur einnig innan dyra. Ráðherrann sagði:

„Það þarf að styðja frekar við og efla mikilvægustu auðlind okkar Íslendinga, hugvitið. Hugvitið getur orðið stærsta útflutningsgrein þjóðarinnar. Ekki bara að hugvitið verði sérstök stoð í atvinnulífinu heldur einnig stækkar hún og styrkir okkar hefðbundnu atvinnugreinar.“

Atvinnustarfsemi blómgast séu henni búin góð skilyrði. Ráðherrann nefndi dæmi um hvernig skattaívilnanir til nýsköpunar- og hugvitsfyrirtækja hefðu skilað sér í margfalt auknum skatttekjum.

Hugvitinu á ekki aðeins að beita til að efla útflutningsgreinar heldur einnig til að takast á við kerfislægan vanda í opinbera stjórnkerfinu sjálfu og í samskiptum launþega og atvinnurekenda.

Þá er þörf á því að virkja mikið hugvit til að glíma við ný viðfangsefni við efnahagsstjórnina vegna óvissu sem ríkir á heimsmarkaði og yfirvofandi skorts á ýmsum sviðum samhliða verðbólgu. Seðlabankastjóri Bretlands fórnaði höndum í byrjun vikunnar þegar hann lýstu svartsýnum horfum.

Ferðaþjónusta er að ná sér á strik að nýju. Þegar allt var lokað bárust samfelldar fréttir um að gera yrði betur af opinberri hálfu til að hindra algjört hrun greinarinnar. Hún hrundi ekki. Hjólin snúast nú hraðar en Jóhanner Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, segir enn í ViðskiptaMogga (18. maí): „Spurningin núna, í kjölfar heimsfaraldurs og sveitarstjórnarkosninga, er hvað nýkjörnir borgar-, bæjar- og sveitarstjórnarfulltrúar ætla að gera á kjörtímabilinu til að auka þessi jákvæðu áhrif ferðaþjónustunnar á þeirra heimabyggð?“

Það felst hvorki mikil trú á nýsköpun né hugvit innan greinarinnar sjálfrar í spurningunni.