6.7.2019 10:45

Að styðja Nei til EU

Það breytir hins vegar ekki skyldu okkar til að standa við gerða samninga, þar með að hindra ekki gildistöku þriðja orkupakkans á EES-svæðinu.

Í Morgunblaðinu þar birtist í dag (6. júlí) afmælisviðtal við Dóru Ólafsdóttur, 107 ára, elsta núlifandi Íslendinginn. Fyrirsögnin er: Vill ekki samþykkja þriðja orkupakkann.

Viðtal Steinþór Guðbjartssonar hefst á þessum orðum: „Við eigum ekki að samþykkja þriðja orkupakkann,“ segir Dóra Ólafsdóttir ákveðin, þegar okkur Kristin ljósmyndara ber að garði. Hún er elsti núlifandi Íslendingurinn, á 107 ára afmæli í dag.“

Um leið og Dóru eru færðar innilegar heillaóskir skal enn vitnað í viðtalið:

„Dagurinn hjá Dóru fer að stórum hluta í að lesa Morgunblaðið. „Ég fæ allar mínar fréttir úr Mogganum, því ég sé svo illa á sjónvarpið,“ segir hún. Bendir á að grein um orkumál eftir Ara Trausta Guðmundsson, sem birtist 17. maí sl., hafi verið góð. „Ég gæti vel hugsað mér að sjá hana birta aftur, því hún var svo fróðleg.““

Þessi grein Ara Trausta, þingmanns VG, snýst um orkuskipti en ekki þriðja orkupakkann eins og ætla mætti af samhenginu. Ari Trausti styður tillögu utanríkisráðherra sem liggur fyrir á alþingi um þriðja orkupakkann. Hann hefur farið stuðningsorðum um fyrsta og annan orkupakka og telur engar hættur stafa af hinum þriðja. Að hans mati höfum við fullt forræði yfir málinu, ekki aðeins varðandi hugsanlegan sæstreng heldur um sjálfa orkuframleiðsluna. Hann sér ekki neitt í orkupakkanum sem skerðir forræði íslenskra stjórnvalda.

Undir þetta mat Ara Trausta skal tekið. Gagnrýnendur þriðja orkupakkans hafa ekki fært nein rök fyrir fullyrðingum sínum um að í honum felist valdaframsal. Af tilvitnuðu orðunum í elsta Íslendinginn má draga þá ályktun að skoðun hennar á þriðja orkupakkanum ráðist af lestri Morgunblaðsins enda er það eini prentmiðillinn sem leggst gegn þriðja orkupakkanum fyrir utan Bændablaðið.

Nei

Í vikunni birti Morgunblaðið grein eftir Þorbjörn Guðjónsson sem spurði meðal annars: „Ef ekki eru uppi áform um útflutning á raforku og þá nauðsynlega lagningu sæstrengs til meginlands Evrópu hvað rekur okkur þá til að samþykkja orkupakka þrjú?“.

EES-samningurinn er leið okkar inn á sameiginlegan markað 515 milljón manna. Alþingi samþykkti samninginn í ársbyrjun 1993 meðal annars með þeim rökum að hann auðveldaði viðskipti um sæstreng yrði hann lagður. Líkur á að sæstrengur komi eru vissulega minni nú en fyrir 25 árum. Það breytir hins vegar ekki skyldu okkar til að standa við gerða samninga, þar með að hindra ekki gildistöku þriðja orkupakkans á EES-svæðinu þótt ekki verði lagður sæstrengur frá Íslandi.

Meginástæðan fyrir háværum umræðum um þriðja orkupakkann hér er sú von minnhlutamanna í Noregi, samtakanna Nei til EU, að þeim takist að hindra innleiðingu hans á EES-svæðinu fyrir tilstyrk Íslendinga. Vill Þorbjörn Guðjónsson svara hvað reki hann til að ganga erinda Nei til EU?