15.11.2018 13:12

Að standa við EES-skuldbindingar

Þegar SDG leiddi ríkisstjórnina var tímabært að taka afstöðu til þess hvort 3. pakkinn ætti heima í EES – Gunnar Bragi taldi svo vera, alþingi og ríkisstjórn voru sammála honum.

Í nokkrum pistlum hér á síðunni hef ég rifjað upp að í ráðherratíð forystumanna Miðflokksins, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar (SDG), þáv. forsætisráðherra, og Gunnars Braga Sveinssonar, þáv. utanríkisráðherra, ákvað ríkisstjórn og alþingi að 3. orkupakki ESB yrði tekinn upp í EES-samninginn. Þá ákvað Sigmundur Davíð einnig í mars 2016 á fundi með David Cameron, þáv. forsætisráðherra Breta, að skipa starfshóp til að fjalla um sölu á orku um sæstreng frá Íslandi til Bretlands.

Þessir pistlar mínir verða SDG tilefni greinar í Morgunblaðinu í dag (15. nóvember). Þar segir að svo virðist sem ég telji það 3. orkupakkanum helst „til framdráttar að ríkisstjórn mín hafi ekki kæft áform ESB um þriðja orkupakkann í fæðingu“. Þetta hef ég aldrei sagt heldur hitt að ríkisstjórn og alþingi samþykktu tillögu Gunnars Braga utanríkisráðherra um að pakkinn yrði hluti EES-samningsins og skuldbundu þannig íslensk stjórnvöld til að innleiða hann. Það yrði gert með samþykkt alþingis. Þannig stóð málið við myndun núverandi ríkisstjórnar og það er hlutverk utanríkisráðherra að leggja tillögu fyrir alþingi svo að unnt sé að standa við skuldbindingu Gunnars Braga sem utanríkisráðherra.

800px-European_Economic_Area_members.svgEES/EFTA-ríkin eru græn á þessu korti, EES/ESB-ríkin blá. Sviss rautt með tvíhliða samninga við ESB, Hvernig verður Bretland á litinn?

Um örlög starfshópsins sem þeir SDG og Cameron ætluðu að setja á fót veit ég ekki. SDG sagði af sér í apríl 2016 og Cameron þá um sumarið eftir að Brexit þjóðaratkvæðagreiðslan fór á annan veg en hann ætlaði.

Þegar SDG leiddi ríkisstjórnina var tímabært að taka afstöðu til þess hvort 3. pakkinn ætti heima í EES – Gunnar Bragi taldi svo vera, alþingi og ríkisstjórn voru sammála honum. Þetta er einföld staðreynd þótt SDG reyni að hártoga hana. Hann segir nú:

„Ég verð þó að viðurkenna að vangaveltur í Brussel um þriðja orkupakkann komu ekki mikið inn á radar ráðuneytisins í minni tíð.“ Þetta segir aðeins þá sögu að SDG taldi málið ekki þess virði að sinna því þótt Frosti Sigurjónsson, þingmaður í flokki hans þá, Framsóknarflokknum, hafi að eigin sögn hreyft andmælum vegna pakkans.

Til að því sé til haga haldið var SDG síður en svo áhuga- eða afskiptalaus um EES-málefni sem forsætisráðherra. Hann hratt á árinu 2014 af stað sérfræðingastarfi til að bæta starfshætti íslenskra stjórnvalda innan EES og bregðast við gagnrýni vegna mikilla tafa við innleiðingu EES-reglna hér á landi. Þessu starfi lauk á árinu 2015 á meðan SDG var enn forsætisráðherra og síðan hefur orðið gjörbreyting til batnaðar á þessu sviði.

Í stjórnmálum geta sjálfskaparvíti ráðið úrslitum um traust og trúverðugleika. Þetta ætti Sigmundi Davíð að vera ljóst. Í EES-málum greinir menn á um skuldbindingar gagnvart öðrum þjóðum. Úr þeim ber að leysa í samræmi við það.