7.8.2017 14:00

Að kenna útlendingum jafnréttislögin

Í frétt í hádeginu í dag, mánudaginn 7. ágúst, var sagt að sumir ferðamenn vildu ekki hafa konu sem leiðsögumann heldur óskuðu eftir að karli.

Í nýjasta hefti tímaritsins Þjóðmála skrifa ég umsögn um bókina Í hörðum slag þar sem Guðrún Guðlaugsdóttir ræðir við 15 blaðamenn í bókinni. Þeir eru handhafar blaðamannaskírteina nr. 9 til 23 en við fráfall eða úrsögn einhvers félagsmanns í Blaðamannafélaginu færast þeir sem eftir eru ofar í félagatalinu.

Viðmælendur Guðrúnar eru: Björn Vignir Sigurpálsson, Magnús Finnsson, Steinar J. Lúðvíksson, Kári Jónasson, Ingvi Hrafn Jónsson, Freysteinn Jóhannsson, Árni Johnsen, Jóhanna Kristjónsdóttir, Styrmir Gunnarsson, Kjartan L. Pálsson, Sigtryggur Sigtryggsson, Gunnar V. Andrésson, Jóhannes Reykdal, Úlfar Þormóðsson og Sigurdór Sigurdórsson. 

Kári Jónasson var lengi fréttastjóri hjá ríkisútvarpinu. Hann segir í samtalinu við Guðrúnu:

 „Mér finnst áberandi í dag hvernig sumir fjölmiðlar vaða fram með sögur sem sagðar eru einhliða. Þeir keyra á aðra hliðina og segja svo að ekki hafi náðst í aðra aðila. Það er hættulegt að gera þetta, það þarf að fá fram sem flest sjónarhorn á sama tíma. Ekki fá eitt í hádegi og annað að kvöldi. Menn ættu að hysja upp um sig buxurnar hvað þetta snertir.“ 

Ég er sammála þessum orðum Kára en sjónarmiðið sem hann lýsir hér á ekki upp á pallborðið hjá núverandi stjórnendum fréttastofunnar. Þar ríkir almennt það viðhorf að hlustendur eða áhorfendur eigi að fá „eitt í hádegi og annað í kvöld“ en ekki er lögð áhersla að bregða ljósi á öll viðhorf í einu og sömu fréttinni. 

Í frétt í hádeginu í dag, mánudaginn 7. ágúst, var sagt að sumir ferðamenn vildu ekki hafa konu sem leiðsögumann heldur óskuðu eftir að karli. Eftir að fréttastofan fékk upplýsingar um þetta var leitað til jafnréttisstofu og ferðamálastofu og leitað álits á þessu máli. 

Bergljót Þrastardóttir, sérfræðingur hjá jafnréttisstofu segir þetta vera hreint og klárt lögbrot. Hún segir:

„Þetta er brot á 18. grein jafnréttislaga þar sem atvinnurekendur eiga að vinna markvisst að því að jafna stöðu kynjanna á vinnumarkaði og eiga sérstaklega að vinna að því að jafna stöðu kynjanna innan fyrirtækja og stuðla að því að störf flokkist ekki í sérstök kvenna- eða karlastörf.“ 

Það var því miður ekki rætt við neinn atvinnurekanda í ferðaþjónustunni sem hefur tekist á við vandamál af þessu tagi. Má skilja sérfræðing jafnréttisstofu á þann veg að atvinnurekandinn eigi að lesa 18. gr. jafnréttislaganna fyrir viðskiptavin sinn? 

Fréttir hafa birst um að sumum erlendum gestum í íslenskum sundstöðum sé misboðið vegna hreinlætiskrafna sem lúta að líkamsþvotti.

Þessum gestum til viðvörunar eru hengd upp skilti til ábendingar. Kröfurnar um þrifnað mættu víða vera betur skráðar og meira áberandi til að auðvelda baðvörðum störfin. Misbrestur er á að reglunum sé framfylgt og þar með gengið á rétt annarra sundgesta.

Nú er spurning hvort jafnréttisstofa og ferðamálastofa láti hanna spjald þar sem ferðamenn eru varaðir við að brjóta íslensk jafnréttislög með að neita leiðsögn kvenna.