24.12.2022 11:53

Að gleyma ekki jólunum

Í lok greinar Le Figaro er minnt á að nú sé víða frekar talað um vetrarmarkaði en jólamarkaði; páskafrí sé orðið að vorfríi í frönskum skólum, tímatalinu sé ekki lengur skipt með því að tala um fyrir og eftir Krist heldur fyrir og eftir okkar tímatal.

Í franska blaðinu Le Figaro birtast í dag, aðfangadag, vangaveltur um spurninguna: Que restera-t-il de „Noël“ à Noël? Hvað er eftir af „jólum“ um jólin?

Í byrjun október hafi þeim sem vildu stunda viðskipti á jólamarkaðnum í Strassborg, Christkindelsmärik, Markaði Jesúbarnsins, sem á rætur til 1570 borist bréf frá borgaryfirvöldum um bannvörur á markaðnum árið 2022. Þar var meðal annars getið um „croix de JC“ – kross JKr – músarmottur, hlaupkennt og sykurhúðað sælgæti og heitan bjór. Skammstöfun borgarstjórnar Strassborgar þýddi: enga róðukrossa, krossa með Kristsmynd, um jólin.

Bernard Xibaut, kanslari erkibiskupsins í Strassborg, segir að sölubannið sé eitt róðukrossar seljist lítið um jólin. Á hinn bóginn sé reiði yfir lítilsvirðingunni í framsetningu skilaboðanna, skammstöfun um tákn kristinnar trúar. „Má ekki lengur nefna upphaf jólahátíðarinnar á nafn?“ spurði borgarfulltrúi minnihlutans í Strassborg. Fulltrúi meirihlutans viðurkenndi að „boðskiptin“ hefðu mistekist.

Í Le Figaro eru nefnd fleiri dæmi um afhelgun jólanna í Evrópu og Frakklandi sérstaklega. Helena Dalli, jafnréttismálastjóri ESB, lagði á árinu 2021 til við embættismenn framkvæmdastjórnar ESB að þeir hættu að segja: Gleðileg jól! og segðu í staðinn Gleðilega frídaga! sú kveðja næði „til fleiri“. Vakið var máls á því á pólitískum vettvangi í Frakklandi að umhverfissinnaður bæjarstjóri í Besançon segði ekki lengur Gleðileg jól! heldur Frábæran desember!

IMG_6296Í franska blaðinu er rakið hvernig fæðingarhátíð Krists dagsett 25. desember breiddist út um Evrópu og Miðjarðarhafssvæðið frá 4. öld. Hátíðin hefði sums staðar komið í stað viðburða tengdum vetrarsólstöðum og til hefðu orðið hefðir eins og miðnæturmessur og síðan sýningar á 12. öld tengdar jötunni. Grenitré hefðu borist í kirkjur frá norrænum og þýskum mönnum, tákn um að líf bærðist í náttúrunni um vetur og frá 15. öld hefðu lítil jötulíkneski verið seld á sérhæfðum þýskum mörkuðum.

Guillaume Cuchet, prófessor í nútímasögu við París I háskólann og höfundur bókarinnar Leið heimsins frá kristni segir ekkert athugavert við að menn geri vel við sig í mat og drykk á hátíðum: „Kaþólikkar eru ekki meinlætamenn,“ segir hann en á hinn bóginn sé áhyggjuefni ef viðskiptahlið hátíðarinnar ýti kjarna hennar og upphafi til hliðar. Kirkjunnar menn gagnrýni þetta. Árið 1951 beittu þeir sér þá þegar fyrir því í frönsku borginni Dijon að brennd voru líkneski af jólasveinum að amerískri fyrirmynd við fordyri dómkirkjunnar, litið var á jólasveinana sem Trójuhesta heiðni á kristinni hátíð.

Í lok greinar Le Figaro er minnt á að nú sé víða frekar talað um vetrarmarkaði en jólamarkaði; páskafrí sé orðið að vorfríi í frönskum skólum, tímatalinu sé ekki lengur skipt með því að tala um fyrir og eftir Krist heldur fyrir og eftir okkar tímatal.

Við þurfum ekki að fara til Frakklands til að átta okkur á þessari þróun. Hún er einnig hér á landi. Trúarbrögðin ein eru ekki í húfi heldur þjóðmenningin sjálf.

Gleðileg jól!