10.10.2017 10:06

Að standa ekki í lappirnar

Þess er skemmst að minnast að ekki aðeins innan Bjartrar framtíðar misstu menn stjórn á atburðarásinni heldur hóf ráðgjafaráð hins smáflokksins í ríkisstjórninni, Viðreisnar, kapphlaup um illa ígrundaðar yfirlýsingar við Bjarta framtíð.

Vilhjálmur Bjarnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir í grein í Morgunblaðinu í morgun Björt framtíð hafi að næturlagi slitið stjórnarsamstarfinu umræðulaust og af stað hafi farið „ferli sem leiðir til nýrra kosninga, innan við ári eftir að síðast voru haldnar kosningar“.

Þegar allt gangi vel sé það ekki lausn á smávægilegum samskiptavandamálum að kjósa. Þingmaðurinn segir síðan:

„Og um hvað snúast svo kosningarnar? Um það hefur enginn getað frætt mig. Er ég þó innmúraður á Alþingi nú um stund.

Lífskjör þjóðar ráðast af staðfestu og stöðugleika í stjórnarfari. Það er ábyrgð stjórnmálaflokka að sýna staðfestu í stjórnarfari. [...]

Í þeirri atburðarás sem hófst um miðnætti 15. september sýndu þingmenn Sjálfstæðisflokksins yfirvegun en smáflokkar féllu og misstu frá sér tækifæri lífs síns. Það er aðeins sterkur Sjálfstæðisflokkur sem getur staðið vörð um stöðugleika í landstjórninni en það er forsenda framfara og lífskjara.“

Þetta er rétt ábending hjá þingmanninum. Þess er skemmst að minnast að ekki aðeins innan Bjartrar framtíðar misstu menn stjórn á atburðarásinni heldur hóf ráðgjafaráð hins smáflokksins í ríkisstjórninni, Viðreisnar, kapphlaup um illa ígrundaðar yfirlýsingar við Bjarta framtíð.

Sunnudaginn 8. október sagði Þorsteinn Víglundsson, ráðherra Viðreisnar, hins vegar í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni:

„Það voru gríðarleg vonbrigði hvernig fór með þessa ríkisstjórn og eins og hefur nú komið á daginn þá var þetta aldrei tilefni til að sprengja stjórnarsamstarf. Menn þurfa að geta staðið í lappirnar.“

Allir sjá hve ómaklegt er að klína því á Sjálfstæðisflokkinn að ríkisstjórnin sprakk um miðjan september. Það er álíka rangt og að klína því á Sjálfstæðisflokkinn að ríkisstjórnin sprakk í raun á vormánuðum 2016 þegar þingflokkur Framsóknarmanna hafnaði forsætisráðherra hennar, Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni.

Eftir að mótmælin risu gegn Sigmundi Davíð á Austurvelli mánudaginn 4. apríl 2016 ákvað þingflokkur Framsóknarmanna að þing skyldi ekki rofið og samstarfinu við Sjálfstæðismenn skyldi fram haldið.

Morguninn eftir bað Sigmundur Davíð um einskonar neyðarfund með Ólafi Ragnari Grímssyni forseta Íslands og kynnti áform sín um þingrof. Í eldhúsinu á Bessastöðum biðu tveir embættismenn forsætisráðuneytisins með „ríkisráðstöskuna“, það er skjöl vegna þingrofsins. Þegar þingmenn Framsóknar áttuðu sig á því sem gerst hafði var Sigmundur Davíð einfaldlega settur af sem forsætisráðherra. Það hefur nú leitt til nýs flokks, Miðflokksins.

Að kenna Sjálfstæðismönnum um þessa atburðarás innan Framsóknarflokksins er fráleitt. Þetta gera þeir þó sem halda því fram að þingrofið 2016 og aftur núna megi reka til Sjálfstæðismanna. Það er alrangt „aðeins sterkur Sjálfstæðisflokkur getur staðið vörð um stöðugleika í landstjórninni“ svo að enn sé vitnað í Vilhjálm Bjarnason alþingismann.