31.3.2020 10:36

Að endurskrifa sömu söguna

Á Baugsárunum barðist Gunnar Smári alls ekki fyrir ströngu regluverki til að hafa bönd á kapítalismanum.

Nýlega var skýrt frá því að Reynir Traustason, gamalreyndur fjölmiðlamaður og ritstjóri, væri orðinn ritstjóri Mannlífs. Reynir lét verulega að sér kveða á árunum fyrir hrun og dró taum Baugsmanna þegar þeir sættu lögreglurannsókn og ákærum. Var hann þar í liði með Gunnari Smára Egilssyni, núverandi leiðtoga íslenskra sósíalista. Fyrsta stórviðtal Reynis á ritstjórastólnum á Mannlífi var við Gunnar Smára. Gerðu þeir félagar tilraun til að endurskrifa söguna Gunnari Smára í vil.

Er þetta skiljanleg viðleitni af þeirra hálfu en breytir þó ekki sögunni. Viðtalið minnir á að ekki aðeins gamlir Baugsmenn láta að sér kveða að nýju í viðskiptalífinu heldur einnig gamlir málsvarar þeirra í fjölmiðlum. Þá minna fréttir af málaferlum og skuldauppgjöri milli eigenda fjölmiðla á vonarvöl á fjármálasviptingarnar vegna fjölmiðla á Baugstímanum. Sagan endurtekur sig, meira að segja með sömu persónum og leikendum.

Why_socialism_stinks_16x9Bröltið í Gunnari Smára varð að þessu sinni til þess að Felix Rafn Felixson viðskiptafræðingur birti grein á vefsíðunni visir.is mánudaginn 30. mars um viðsnúning Gunnars Smára „þessi fyrrum kapítalisti er nú orðinn harður sósíalisti,“ segir Felix Rafn sem efast þó um heiðarleika Gunnars Smára „í viðsnúningi sínum, [...] Sá grunur læðist á [svo] mér að hann sé alveg eins mikill kapítalisti og áður. Hann kom bara auga á gott viðskiptatækifæri. Stofna stjórnmálaflokk, koma fram með málflutning sem höfðar til viss hóps fólks og fá þannig fjármagn frá ríki og öðrum styrktaraðilum til að tryggja sjálfum sér tekjur. Snilldarbragð.“

Takmarkið sé ekki „að koma á sósíalistastjórnkerfi á Íslandi. Takmarkið er að reka fyrirtækið með hagnaði og helst sem lengst“. Felix Rafni finnst borin von að Gunnari Smára takist að koma hér á sósíalisma til langframa þótt hann græði kannski á einum kosningum. Hann lýkur grein sinni á þessum orðum:

„Til að kapítalismi þjóni öllum þarf skýrt og strangt regluverk til að koma í veg fyrir að þeir sem eiga auðinn misnoti vald sitt. Gunnar Smári ætti frekar að vera að berjast fyrir þeirri breytingu en ekki reyna að fá fólk til að trúa því að fílósófía sem hefur leitt af sér heimsstyrjöld, fasisma og útrýmingu yfir 100 milljóna manna muni leiða til betra samfélags en það sem við búum við í dag. Að telja fólki trú á útópíu sósíalismans til að hámarka hagnað fyrirtækisins dansar allavega á línu þess sem kallast siðlegt.“

Á Baugsárunum barðist Gunnar Smári alls ekki fyrir ströngu regluverki til að hafa bönd á kapítalismanum. Fáir fjölmiðlarekendur nýttu sér hnattvæðinguna og afregluvæðingu hennar betur en hann með fríblöðum í Kaupmannahöfn og Boston auk prentsmiðju í Bretlandi.

Áður en Gunnar Smári gerðist málsvari sósíalískrar þjóðnýtingar vildi hann afnema fullveldi Íslands með því að gera landið að norsku fylki. Gróðinn í þeirri hugmynd sneri kannski að landsölu? Að menn sjái viðskiptatækifæri í sósíalísku brölti snýr ekki aðeins að stuðningi skattgreiðenda við stjórnmálaflokka heldur einnig aðgangi að sjóðum verkalýðshreyfingarinnar en hann var einmitt Gunnari Smára ofarlega í huga í samtalinu við Reyni Traustason.