4.5.2021 10:51

Að baða sig í Skæla gún

Ekki þarf nema smábrot af öllu hugvitinu sem býr að baki framtakinu til að velja að íslenskt nafn.

Þórarinn Eldjárn skáld skrifar á FB í dag, 4. maí:

„Já, það er skrýtin smekkvísi að koma sér upp flottum baðstað fyrir milljarða og vilja svo alveg endilega skíra hann Skæla gún. Það liggur við að maður fari að skæla.“

Þarna vísar til þess að yst á Kársnesinu er enn einn nýr baðstaður kominn til sögunnar og ber hann heitið: Sky Lagoon.

Af sama tilefni segir Guðni Ágústsson, fyrrv. ráðherra, í Morgunblaðinu í dag:

„Nöfn þjónustufyrirtækja í Reykjavík eru að verða með þeim hætti að um gæti verið að ræða erlenda borg þegar gengið er um göturnar. Mathöll Ingólfs Arnarsonar eða Hallveigar Fróðadóttur eru hvergi, þrátt fyrir að við vitum allt um landnám þeirra. „Sky Lagoon“ er ný ferðamannaparadís á höfuðborgarsvæðinu sem milljónir manna munu heimsækja á næstu árum, ekkert síður innlendir en erlendir. Bláa lónið er afburðanafn, íslenskt nafn í húð og hár. Skýjalónið eða Skýjaborgin hefði verið kjörið og lýsandi nafn á „Sky Lagoon“, því þar verða gestirnir skýjum ofar af sælu.“

Það er furðuleg árátta að leggja ekki á sig að velja stöðum eins og þessum íslenskt heiti. Ekki þarf nema smábrot af öllu hugvitinu sem býr að baki framtakinu til að velja að íslenskt nafn. Markaðssetning gagnvart erlendum ferðamönnum fer síðan fram á ferðamannamálinu ensku.

OG-Lagoon-Infinity-EdgeKynningarmynd frá Sky Lagoon

Fyrirtækjanöfn á ensku er eitt, virðingarleysið við móðurmálið birtist því miður víðar og af ólíklegasta tilefni. Sunnudaginn 2. maí ræddi visir.is við Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar, sem sagði:

„Þessi vél [frá Delta-flugfélaginu] er kannski fyrsta vélin sem er aðallega að koma með „detikeraða“ ferðamenn, það er allur munurinn, sem sýnir að ferðamannasumarið er kannski að hefjast núna.“

Enska lýsingarorðið dedicated er íslenskað með fallegu orðunum trúr, hollur, einlægur, sannur. Þótti ekkert af þeim eiga við um þá ágætu ferðamenn sem lögðu leið sína hingað frá Bandaríkjunum þennan dag?

Í ríkissjónvarpinu eru nú sýndir fróðlegir og vel gerðir þættir um sögu íslenskrar kvikmyndagerðar. Rætt er við marga sem koma að gerð kvikmynda og er áberandi hve málfarið er oft ensku skotið. Hefur gleymst að íslenska íðorð kvikmyndagerðar? Eða þykir það í stíl við vaxandi alþjóðlega sýn þeirra sem að kvikmyndum vinna að tala svona bjagað mál?

Raunar er það ekki aðeins á þessu sviði menningarstarfsemi sem íslenska á undir högg að sækja. Þeir sem horfa á menningarhornið í ríkissjónvarpinu á eftir Kastljósi veita því óhjákvæmilega eftirtekt hve ýmsir listamenn eiga erfitt með að lýsa verkum sínum eða hugmyndum á íslensku.

Fyrir nokkrum áratugum var gert skipulegt, árangursríkt átak til að íslenska flugmálið eftir gagnrýni á ensku slettur þar. Nú ætti lista- og menningarfólk að taka höndum saman um að vanda málfar sitt í þágu íslenskunnar. Raunar er það sérstök, lögbundin skylda ríkisútvarps að sinna menningarlegu hlutverki sínu með því að leggja rækt við íslenska tungu. Færi vel á því að stjórnendur menningarþátta tryggðu að farið yrði að þessari lögbundnu kröfu.