9.1.2022 10:36

Ábyrgð Íslands á vesturvængnum

Íslenskum hagsmunum er best borgið með góðri samstöðu innan danska konungsríkisins um allt sem varðar aukna festu í varnar- og öryggismálum í góðu samstarfi við Bandaríkjastjórn.

Andreas Krog. ritstjóri á dönsku vefsíðunni altinget.dk, birti fimmtudaginn 6. janúar 2022 grein um stöðuna í öryggismálum Færeyja og Grænlands með sérstakri skírskotun til áhuga Bandaríkjastjórnar á hafnaraðstöðu þar fyrir herskip sín vegna aukinna umsvifa á Norður-Atlantshafi og í norðurhöfum.

Krog segir að það verði forvitnilegt að sjá hvernig aukin hernaðarleg viðvera Bandaríkjanna á norðurslóðum (d. Arktis) þróist á nýbyrjuðu ári gagnvart Grænlandi og Færeyjum. Bandaríkjamenn hafi ekki áhuga á flotastöðvum heldur aðstöðu við bryggjur þar sem unnt sé fá olíu og gera við eitthvað smáræði sem úrskeiðis fer. Hugsanlega ljúki þessum könnunum með niðurstöðu á þessu ári.

72321Í fyrsta sinn í 33 ár heimsótti bandaríkst herskip Færeyjar í október 2019. Myndin er frá dönsku herstjórninni og sýnir bandaríska tundurspillinn Donald Cook í Runavik. Gámarnir frá Eimskip minna á hve Íslendingar og Færeyingar eiga mikið sameiginlegt um að stöðugleiki og öryggi ríki á Norður-Atlantshafi.

Krog vitnar í grein sem birtist í danska vikublaðinu Weekendavisen í nóvember í fyrra um að bandaríski flugherinn legði lokahönd á undirbúning að allsherjar endurnýjun og uppfærslu á Thule-herstöðinni á norðvesturhorni Grænlands. Þá hefðu Bandaríkjamenn einnig ákveðið að leggja fram fé í flugvallargerð á Grænlandi.

Í fyrra kom danska stjórnin á samstarfsnefnd (d. kontaktudvalg) með stjórnum Færeyja og Grænlands um utanríkis-, varnar- og öryggismál. Krog segir að í ár kunni að reyna á þessa nefnd í framkvæmd, til dæmis ef Bandaríkjastjórn kynnir óskir um aukna hernaðarlega viðveru. Verði ekki samkomulag eigi danska ríkisstjórnin lokaorðið í samræmi við samstarfsreglur um stjórn danska konungsríkisins (d. rigsfællesskabet). Á úrslitavaldið í Kaupmannahöfn geti t.d. reynt varðandi nýja ratsjá í Færeyjum. Viðræður um hana hafi dregist á langinn en líkur séu þó á að samkomulag takist á næstunni.

Nýja ratsjáin er hluti aðgerða sem danska ríkisstjórnin kynnti í fyrra þegar ákveðin var 1,5 milljarða d.kr. aukafjárveiting til að styrkja varnir og gæslu á norðurslóðum, Færeyjum og Grænlandi.

Helmingur aukafjárveitingarinnar var eyrnamerktur tveimur nýjum, langdrægum drónum sem danski herinn ætlar að nota til eftirlits á Grænlandi og nálægum hafsvæðum. Um framkvæmd þessara áforma verður rætt við grænlensk yfirvöld á þessu ári.

Pólitíska ábyrgðin á framkvæmd þessara dönsku áforma hvílir nú á sósíal-demókrötunum Jeppe Kofod utanríkisráðherra og Trine Bramsen varnarmálaráðherra. Andreas Krog segir í lok greinar sinnar að takist þeim ekki að semja við stjórnvöld í Færeyjum og Grænlandi kunni að verða vík milli vina í konungsríkinu.

Íslenskum hagsmunum er best borgið með góðri samstöðu innan danska konungsríkisins um allt sem varðar aukna festu í varnar- og öryggismálum í góðu samstarfi við Bandaríkjastjórn.

Finnar og Svíar hafa tekið höndum saman um að tryggja sem best öryggi á austurvæng Norðurlandanna. Þeir vilja náið samstarf við Bandaríkjamenn og NATO og andmæla öllum tilraunum Rússa til íhlutunar um öryggismál sín. Á vesturvæng Norðurlandanna ber íslenskum stjórnvöldum skylda til að leggja sitt af mörkum til að tryggja sameiginlegt öryggi. Stefnan sem danska ríkisstjórnin kynnti í fyrra er skynsamlegt og mikilvægt skref á þeirri braut.