13.9.2023 9:52

Ábyrg fjármálastjórn

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur undanfarnar vikur áréttað að í stjórnkerfinu og við siglingu þjóðarskútunnar gildi ákveðin verkaskiptingur

Erfitt er að átta sig á við hverju þeir bjuggust sem nú segja að ekkert komi þeim á óvart í fjárlagafrumvarpi ársins 2024. Viðbrögð stjórnarandstæðinga eru á þann veg án þess að þeir skýri nánar hvað fyrir þeim vakir. Í frétt á ruv.is eru viðbrögðunum lýst á þennan hátt 12. september:

„Nýtt fjárlagafrumvarp var kynnt í morgun og þing sett eftir hádegi. Leiðtogum stjórnarandstöðuflokkana þykir ekki sérstaklega mikið til fjárlagafrumvarpsins koma. Þau segja þar lítið nýtt, flestar aðgerðir hafi verið kynntar nokkrum sinnum áður.“

Að morgni miðvikudagsins 13. september mátti heyra viðbrögð forseta ASÍ og Vilhjálms, verkalýðsforingja á Akranesi, sem braut ísinn í kjaraviðræðunum í desember 2022. Þeir láta báðir eins og í frumvarpinu hafi átt að birtast einhverjar tölur eða formúla sem tæki af þeim ómakið að gera kjarasamninga í vetur. Af hálfu ríkisstjórnarinnar hefur verið kynntur grunnur sem hún stendur á þegar þeir sem semja um kaup og kjör ganga til þess verks sem þeir hafa tekið að sér að vinna.

Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hefur undanfarnar vikur áréttað að í stjórnkerfinu og við siglingu þjóðarskútunnar gildi ákveðin verkaskipting. Ábyrgðin hvílir á ólíkum herðum lögum samkvæmt en allir verði þó að stilla saman strengina til að dæmið gangi upp að lokum.

Bjarni-Benediktsson-fjarlagafrumvarp-2-bordi-forsBjarni Benediktsson kynnir fjárlagafrumvarpið 2024 (mynd: stjórnarráðið).

Krafturinn sem hljóp í hagkerfið eftir að COVID-haftatímanum lauk var meiri en vænst var, hagvöxtur er meiri hér en annars staðar. Til að slá á hitann hefur seðlabankinn gripið til vaxtahækkana en eitt af því sem Bjarni minnir á er að hlutverk seðlabankans sé að sjá til þess að verðbólga haldist innan settra marka. Aðrir eigi að sjálfsögðu að leggja sig fram um að veita bankanum liðsinni.

Dagur B. Eggertsson borgarstjóri sem misst hefur tökin á fjármálastjórn Reykjavíkurborgar nefnir gjarnan að þar hafi fatlaðir sett strik í reikninginn. Ríkið greiði sveitarfélögum ekki nóg eftir að málaflokkur fatlaðra var fluttur frá ríki til sveitarfélaga. Bjarni segir að þarna beri að líta til þess að við fjárhagslegt mat á flutningnum hafi þeir sem að honum stóðu greinilega misreiknað sig hrapallega, kallar fjármálaráðherra það „klúður“ þeirra sem að málinu stóðu.

Þriðja dæmið sem fjármálaráðherra nefnir snýr að samgöngusáttmálanum um höfuðborgarsvæðið og kostnaði við hann sem fer nú með himinskautum og er talinn nálgast 300 milljarða króna í stað 120 milljarða sem lágu til grundvallar við gerð sáttmálans.

Þarna hefur lengi stefnt í óefni en af hálfu borgarstjórans í Reykjavík einkennast viðbrögðin af alkunnri afneitun. Dagur B. segir að borgin „vaxi upp úr“ fjárhagsvandanum. Er þetta það sem hann hefur gengið lengst í viðurkenningu á að ekki sé allt með felldu borgarfjármálum. Honum líkar vel við bílaraðir og tafir í umferðinni. Lengd raðanna og tafanna telur borgarstjóri stuðning við borgarlínu og stefnu sína í samgöngumálum!