15.12.2019 11:14

Áætlanir í stað ásakana

Þegar menn komast af ásakanastiginu vegna ofsaveðursins ber að vinna áætlanir og framkvæma þær.

Ásakanir ganga á báða bóga í umræðum um raforkuskort vegna ofsaveðursins sem varð þriðjudaginn 10. desember norðan fjalla. Við blasir að víða má gera enn betur til að tryggja orkuöryggi. Tryggvi Þór Haraldsson, forstjóri RARIK, lýsir stöðunni þannig:

„Þrátt fyrir að við höfum kannski fengið meiri bilanir hér á árum áður en síðan þá hafa orðið svo miklar breytingar, það er búið að setja stóran hluta dreifikerfisins í jörðu. Við erum komin með 65% að kerfinu hjá okkur í jörð. Ég get ekki hugsað þá hugsun til enda hvernig það hefði verið ef við hefðum ekki verið búin að því í þessu veðri.“

Háværar kvartanir bárust frá Sauðárkróki án þess að viðunandi skýring væri gefin á því hvers vegna svo lengi hefur dregist að endurnýja 40 ára gamla línu milli Varmahlíðar og Sauðárkróks. Jarðstrengur hefur beðið þess að vera lagður í jörðu – hvers vegna var fyrst gengið til framkvæmda fyrir skömmu?

Með vísan til deilna um þriðja orkupakkann fyrr á árinu má rifja upp að vorið 2015 lögleiddi alþingi hluta hans með hraði til að auðvelda lagningu rafstrengja í jörðu. Á hinn bóginn er bent á að rafmagnið sem Landsnet flytur sé ekki allt eins. Kostnaður við flutning 33kv í jörð sé ekki sá sami og við 220kv. Annað hafi lengi verið sett í jörð en hitt ekki. Annað geti borgað sig þó hitt verði ekki gert nema með tapi. Eigi að reka Landsnet sem hlutafélag og krefjast arðs af rekstrinum verði að brúa tapið með hærri gjaldskrá eða hærri sköttum.

Þegar vísindarannsóknir sýndu í upphafi aldarinnar að ef til vill yrði gos í vesturhluta Mýrdalsjökuls með vatnsflóði í Markarfljóti beitti Kjartan Þorkelsson, þáv. sýslumaður á Hvolsvelli, sér fyrir gerð viðbragðsáætlana. Ríkisvaldið studdi framtakið og til áætlananna var gripið í Eyjafjallajökulsgosinu árið 2010.

Eftir mikla jarðskjálfta á Suðurlanda árið 2000 var ráðist í rannsóknir af ýmsum toga, meðal annars félagsfræðilegar. Þar var lögð áhersla að huga vel að mannlega þættinum, þjónustu- og hjálparmiðstöðvum auk þess sem samband yrði haft við alla á skjálftasvæðinu. Unnið var í samræmi næst þegar skjálfti varð. Skilaði það góðum árangri.

1178001Arnar Valdimarsson tók þessa mynd af starfsmönnum RARIK við línuviðgerð og birtist hún á mbl.is

Loks ber að nefna gífurlegar framkvæmdir til að draga úr hættu á snjóflóðum eftir flóðin miklu á árinu 1995.

Hér eru nefnd þrjú dæmi um skynsamlegar aðgerðir til að bregðast við náttúruvá og afleiðingunum hennar. Þegar menn komast af ásakanastiginu vegna ofsaveðursins ber að vinna áætlanir og framkvæma þær.

Einhverjir vilja alltaf nota hamfarir til að fegra eigin málstað. Það mátti heyra í fréttum á Stöð2 að kvöldi laugardags 14. desember þegar Auður Anna Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, vildi þakka félagi sínu „pínulítið fyrir það að Landsnet er farið að skoða jarðstrengi fyrir alvöru“. Notaði hún síðan tilefnið til að hallmæla sölu 80% raforkunnar til stóriðju. Þarna er horft fram hjá því hve íslenska þjóðin tók stórt stökk til að bæta eigin hag með Búrfellsvirkjun á sjöunda áratugnum og sölu orku til álversins í Straumsvík. Landvernd skuldar þjóðinni skýringu á því á hvaða stigi hefði átt að stöðva velsæld þjóðarinnar með því að hætta að nýta orkulindirnar.