25.4.2022 9:37

Á valdi aukaatriðanna

Í þjóðfélagi þar sem enginn munur er gerður á aðal- og aukaatriðum, ráða aukaatriðin ferðinni því að þau krefjast einskis.

Pólitískar umræður vegna sölunnar á Íslandsbanka eru hættar að snúast um efni málsins. Raunar hefur það alla tíð verið átylla hjá keppinautunum innan raða Pírata og Samfylkingar til að sýna hver sé mestur í átökum við ríkisstjórnina og þann sem þeir þeir telja burðarás hennar, Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, fjármála- og efnahagsráðherra.

Málið er í ætt við upphlaupið sem varð við talningu atkvæða í NV-kjördæmi í þingkosningunum 25. september og tafði myndun ríkisstjórnar og skapaði óvissu um störf alþingis í um það bil tvo mánuði.

Framvinda þess máls og öll vitleysan sem var sögð í tengslum við það hefði átt að kenna ábyrgum forystumönnum í stjórnmálum að þeir lifðu á tímum upplýsingaóreiðu og fjölþátta árása undir merkjum hennar. Allar ákvarðanir yrði að taka með það í huga að umræður færu fram í nýjum miðlum og starfsmenn gamalgróinna fjölmiðla eltu þá gjarnan uppi sem vildu ganga lengst til að halda „lífi í umræðunni“ án tillits til þess hvort nokkuð væri að marka fullyrðingarnar.

110250709-collection-of-pairs-of-people-during-conflict-or-disagreement-set-of-men-and-women-quarreling-brawliÞetta sannaðist strax á fyrstu stigum umræðunnar um söluna á eignarhlutnum í Íslandsbanka þegar Páll Magnússon, fyrrverandi þingmaður og fjölmiðlamaður, birti á samfélagsmiðli frásögn um gróða einhvers eftir kunningja sínum. Frásögnin gat ekki staðist. Flaug hún þó óathuguð inn á alla netmiðla þeirra fjölmiðla sem talið er að vinni eftir viðurkenndum starfsreglum um að sannreyna það sem þeir birta.

Hér skal ekkert fullyrt um hvort rétt hafi verið staðið að öllu varðandi framkvæmd þessarar sölu, það er til rannsóknar hjá fjármálaeftirliti og ríkisendurskoðun. Hitt skal fullyrt að löggjöfin sem samfylkingarþingmaðurinn Oddný Harðardóttir, þáv. fjármálaráðherra, beitti sér fyrir árið 2012 um sölu á ríkiseignum í fjármálastofnunum átti að tryggja „faglega“ framkvæmd sölunnar án annarra afskipta stjórnmálamanna en að leggja línurnar, meðal annars með aðild tveggja þingnefnda, og síðan staðfesta að eftir þeim línum hefði verið farið.

Nú telur Oddný sér sæma að láta eins og eitthvað annað hafi vakað fyrir henni. Fjármálaráðherra hefði átt að velja og hafna kaupendum. Ómerkilegri verður hollustan við eigin málstað ekki.

Bankasýslan fær ítrekað langar og ítarlegar spurningar frá fjárlaganefnd og vill fá tveggja daga lengri svarfrest. Nefndarmenn tala eins og himinn og jörð sé að farast og fjölmiðlamenn spila með um þetta algjöra aukaatriði.

Formenn stjórnarflokkanna fara yfir umræðurnar sem urðu um bankasölumálið fyrir páska og kynna þá niðurstöðu sína eftir páska að fyrirkomulagið sem reist er á lögunum frá 2009 og 2012 um bankasýsluna og sölu ríkisrekinna fjármálafyrirtækja þurfi að endurskoða. Þingflokksformaður Samfylkingarinnar gefur til kynna í blaðagrein að með því að móta þessa stefnu hafi forsætisráðherra brotið stjórnarskrána og kunni að eiga landsdóm yfir höfði sér.

Hvers vegna er svona auðvelt að leiða umræður hér í málefnalegar ógöngur? Þetta er áhyggju- og athugunarefni. Í þjóðfélagi þar sem enginn munur er gerður á aðal- og aukaatriðum, ráða aukaatriðin ferðinni því að þau krefjast einskis.