4.6.2023 10:25

Á sjómannadegi

Reynsla Kanadamanna á þessum árum vakti nokkurn óhug hér. Blundar sá ótti líklega enn hjá þeim sem muna þessar náttúruhamfarir við Atlantshafsströnd Kanada að sama getið gengið yfir þorskstofninn hér.

Fyrir rúmum 40 árum fór ég á vegum Morgunblaðsins til Nýfundnalands og skrifaði eftir ferðina nokkrar greinar um sjávarútveg þar og kvótakerfið sem þeir innleiddu á þessum árum til að vernda þorskstofn sinn gegn ofveiði.

Þetta rifjaðist upp þegar ég las viðtal við Magnús Gústafsson athafnamann í sjómannadagsblaði Morgunblaðsins nú um helgina, en sjómannadagurinn er í dag, 4. júní.

Magnús var forstjóri Hampiðjunnar á þessum tíma og lagði oft leið sína til Kanada vegna viðskiptavina þar. Í samtalinu segir Magnús að fyrirmyndin að íslenska kvótakerfinu hafi orðið til í Kanada.

Árið 1983 hafi Kristján Ragnarsson, framkvæmdastjóri Landssambands íslenskra útvegsmanna (LÍÚ), haft á orði við sig að verða með í næstu ferð Magnúsar til Kanada. Í ferðinni hafi þeir haft aðgang að útgerðum, ráðuneytum og fleirum. Þá segir Magnús:

„Var kanadíska kerfið notað til viðmiðunar þegar íslenska kvótakerfið var útfært. Var þá löngu orðið ljóst að koma þyrfti á einhvers konar kvótakerfi fyrir íslenskan sjávarútveg, og sáu stjórnvöld fram á það að ef þau ekki úthlutuðu veiðiheimildum gætu þau þurft að kaupa til sín skip sem útgerðarmenn höfðu keypt í trausti þess að fá veiðiheimildir.“

Í þessum orðum felst meðal annars skýring á því hvers vegna kvóta var úthlutað í upphafi miðað við þriggja ára aflareynslu skipa.

Magnús segir að aldrei verði allir fullkomlega sáttir þegar til verði slíkt stjórnkerfi. Á hinn bóginn „sé samhljómur um að íslenska kvótakerfið hafi reynst betur en kvótakerfi nokkurrar annarrar þjóðar“.

Hvað sem leið frumkvæði Kanadamanna við hönnun á kvótakerfi tókst þeim ekki að vernda þorskstofninn við austurströnd sína og hann hrundi um miðjan níunda áratuginn: „Í 40 ár höfðu kanadískir sjómenn veitt árlega 600.000 tonn af þorski, og eins og hendi væri veifað datt aflinn niður í 20.000 tonn. Ég hef aldrei fengið almennilega skýringu á því hvað gerðist, en persónulega held ég að svokallaðar gildruveiðar hafi átt þátt í því að skaða stofninn,“ segir Magnús.

350830820_939046840679052_4012453712280856411_n

Reynsla Kanadamanna á þessum árum vakti nokkurn óhug hér. Blundar sá ótti líklega enn hjá þeim sem muna þessar náttúruhamfarir við Atlantshafsströnd Kanada að sama getið gengið yfir þorskstofninn hér.

Á næsta ári verða 40 ár liðin frá því að lögin frá 1983 um kvótakerfið komu til framkvæmda. Það hefur lagt grunn að gífurlega öflugum sjávarútvegi hér sem getið hefur af sér hátækniþróun og alþjóðlega sókn íslensks hugvits í margvíslegum myndum.

Kvótakerfið hefur einnig kallað fram niðurrifsviðhorf og harðar pólitískar deilur í áranna rás. Í nóvember 2019 hófst til dæmis stórárás í Kveik ríkissjónvarpsins með fullyrðingum um saknæma starfsemi Samherja í Namibíu. Hefur málatilbúnaðurinn reynst haldlaus sé litið til málaferla í Namibíu þar sem enginn frá Samherja situr undir ákæru í stærsta pólitíska hneykslismáli í sögu landsins.