26.11.2023 9:52

Á hálum jaðarís

Þeir sem skipa sér á jaðar umræðna um utanríkismál eða annað gera það oft á heimatilbúnum forsendum sem eiga ekki við nein rök að styðjast.

Í Morgunblaðinu í gær (25. nóv.) birti ég grein undir fyrirsögninni: Trúnaðarbresturinn gagnvart WHO. Sagði ég alið á tortyggni í garð nýs alþjóðlegs farsóttarsáttmála á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Nauðsynlegt væri að kynna efni hans og ræða opinberlega.

Í grein minni sagði:

„Í opinberri kynningu á WHO CA+ er mikil áhersla lögð á fullveldi ríkja. Í frumvarpsdrögunum á að standa skýrum stöfum að ríki hafi fullveldisrétt til að ákveða sjálf og stjórna hvernig þau haga heilsugæslu sinni, þar á meðal sóttvörnum, viðbúnaði og viðbrögðum. Ríkjum er ekki skylt að grípa til neinna sérstakra aðgerða eða ákvarðana að tillögu WHO. Ráðið hefur ekki yfirþjóðlegt vald.“

Í þessum orðum lýsi ég því sem segir í opinberum gögnum WHO án þess að taka afstöðu til þess enda hef ég ekki séð texta sáttmálans sem enn er á samningaborðinu.

Hvað sem þessu líður segir Arnar Þór Jónsson, varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins, í bloggi sínu þennan sama dag:

„Í Morgunblaðinu í dag fjallar Björn Bjarnason um nýjan sáttmála WHO og kemst að þeirri niðurstöðu að sáttmálinn muni ekki ógna fullveldi aðildarríkja, geri ríkjum ekki skylt að grípa til neinna sérstakra aðgerða eða ákvarðana að undirlagi WHO og að ráðið hafi ekki yfirþjóðlegt vald. Allt þetta segir Björn í niðurlagi greinar sinnar þrátt fyrir að viðurkenna nokkrum línum ofar að ,,enginn endanlegur texti að nýjum farsóttarsáttmála ligg[i] fyrir."“

Þeim er ljóst sem fylgjast með skrifum Arnars Þórs að hann er ósammála mér um ýmsa þætti aðildar Íslendinga að alþjóðasamstarfi. Í umræðum um þennan málaflokk eins og aðra er lágmarkskrafa að rétt sé eftir haft. Það er einfaldlega rangt að gera skoðanir WHO á fyrirhugðum farsóttarsáttmála að mínum.

NordefcoNorrænir varnarmálaráherrar í Stokkhólmi 24. nóvember 2023. Sósíalistar á Samstöðinni vöknuðu við að utanrkisráðherra Íslands fer einnig með varnarmál og hefur gert frá því að ráðherraembættið kom til sögunnar fyrir um 80 árum.

Þeir sem skipa sér á jaðar umræðna um utanríkismál eða annað gera það oft á heimatilbúnum forsendum sem eiga ekki við nein rök að styðjast.

Samstöðin er áróðursmiðill sósíalista sem Gunnar Smári Egilsson opnaði á netinu eftir að hann fékk nægilega mörg atkvæði í alþingiskosningunum 2021 til að fá 120 milljónir kr. úr ríkissjóði í 4 ár.

Á Samstöðinni var föstudaginn 24. nóvember býsnast yfir því að birst hefði mynd af Bjarna Benediktssyni utanríkisráðherra þann sama dag með öðrum norrænum varnarmálaráðherrum á NORDEFCO-fundi þeirra í Stokkhólmi. NORDEFCO, norræna varnarmálasamstarfið, hófst haustið 2009. Frá þeim tíma hefur utanríkisráðherra Íslands setið þar ráðherrafundi eða embættismenn í umboði hans. Utanríkisráðherra er jafnframt varnarmálaráðherra og hefur verið áratugum saman. Nú segir Samstöðin hins vegar:

„Þar sem ekkert eiginlegt varnarmálaráðuneyti er starfrækt á Íslandi mætti kannski gera ráð fyrir að þetta væri að jafnaði tilfellið, að utanríkisráðherra hafi varnarmál á sinni könnu.“

Blaðamaðurinn gerir viðtekinn þátt í stjórnkerfinu tortryggilegan í endalausri viðleitni sósíalista til gera á hlut Bjarna Benediktssonar og notar til þess ljósmynd! Jaðarmenn stjórnmálanna beita öllum ráðum í þágu rangs málstaðar.