Á dögum kórónaveirunnar
Við lifum nú svo stóra atburði að erfitt er að skilja þá nema með aðstoð einhvers sem er beinn þátttakandi og það erum við öll.
Fyrir tilviljun las ég nú á dögunum að nýju bók Katrínar Ólafsdóttur (1916-2009) Liðna daga sem kom fyrst út árið 1946 og síðan í annarri útgáfu árið 1947. Í bókinni segir Katrín á ljóslifandi hátt frá lífinu í austurrísku borgunum Graz og Vínaborg á lokaárunum fyrir stríð og á tíma síðari heimsstyrjaldarinnar, flótta sínum undan Rússum frá Austurríki með tveimur barnungum sonum til Bæjaralands og þaðan til Íslands fyrir tilstilli Rauða krossins. Katrín var á þessum árum gift tónlistarmanninum dr. Frans Mixa en síðar giftist hún Óla P. Hjaltested lækni.
Katrín lýsir á ljóslifandi, dramatískan og sorglegan hátt örlögum einstaklinga og þjóða á þessum átaka- og umbrotatímum.
Gerðar hafa verið atrennur að því að segja frá „gleymdu árunum“ og örlögum milljóna manna í Evrópu strax eftir að stríðinu lauk. Þetta er svo hrikaleg saga að erfitt er að skilja hana í heild, jafnvel nú á tímum heimildarmynda um atburði sem lágu vísvitandi í þagnargildi. Þeir hafa hvílt eins og mara á einstaklingum og þjóðum og gera í mörgum tilvikum enn þann dag í dag.
Frásögn Katrínar er svo persónuleg og stendur lesandanum svo nærri að það opnast sýn ekki aðeins á örlög einstaklinga heldur einnig á viðhorf og tilfinningar þjóða.
Fimmtudagur 2. apríl 2020.
Í Morgunblaðinu í dag (2. apríl) er sagt frá því að Þjóðminjasafn Íslands ætli að efna til spurningakönnunar á netinu um líf einstaklinga „á dögum kórónuveirunnar“ eins og það er orðað og haft er eftir Ágústi Ólafi Georgssyni, sérfræðingi þjóðháttasafns safnsins:
„Þetta er einhver mikilvægasta heimildasöfnun safnsins frá upphafi. Efnið snertir alla landsmenn á óvenjulegan og áþreifanlegan hátt. Við teljum að það sé afar mikilvægt að safna upplýsingum beint frá fólki, um reynslu þess og upplifanir, á þessum afar sérstæðu tímum. Ef vel tekst til væntum við þess að fá einstakt efni í hendurnar þar sem faraldurinn er í fullum gangi.“
Undir þetta skal tekið og nú þegar má lesa í fjölmiðlum og á netinu margar frásagnir um atburði og reynslu á þessum óvenjulegu tímum. Bendi ég til dæmis á frásögn sr. Gunnlaugs Stefánssonar sem birtist á mbl.is um heimferð hans frá suðurhluta Argentínu.
Við lifum nú svo stóra atburði að erfitt er að skilja þá nema með aðstoð einhvers sem er beinn þátttakandi og það erum við öll.