Dagbók: nóvember 2011

Fimmtudagur 17. 11. 11 - 17.11.2011

Einn þeirra leitarmanna sem stóð að því að smala í eftirleit í Fljótshlíðinni hringdi í mig í morgun og sagði mér að óhjákvæmilegt hafi verið að fella Fjalladrottninguna mína af því að hún hefði hrapað í björgum og verið svo lemstruð að eina ráðið hafi verið að skjóta hana.

Fjölmenni var við jarðarför Matthíasar Á Mathiesens í Hafnarfarðarkirkju í dag þar sem séra Þórhallur Heimisson jarðsöng.

Laugardalshöllin var þéttsetinn klukkan 16.30 þegar 40. landsfundur Sjálfstæðisflokksins var settur. Bjarni Benediktsson setti fundinn með ræðu og var máli hans oft fagnað með lófataki. Umbúnaðurinn var annar en á sumarfundinum árið 2010 þegar ræðustóllinn hafði ekki verið fluttur úr Valhöll. Hann stóð nú voldugur á senunni svo að nú verður ekki rifist vegna fjarveru hans. Þá var umgjörðin eins þjóðleg og unnt var að hugsa sér. Augljóst er að skipuleggjendur fundarins hafa tekið mið af gagnrýni á umbúnað 39. landsfundarins.