10.7.2020 10:13

10. júlí – minningardagur

Þess er minnst í dag að 50 ár eru frá brunanum á Þingvöllum og andláti foreldra minna og frænda, Benedikts Vilmundarsonar.

Þess er minnst í dag að 50 ár eru frá brunanum á Þingvöllum og andláti foreldra minna og frænda, Benedikts Vilmundarsonar.

Morgunblaðið sýnir minningu þeirra virðingu á vandaðan og góðan hátt eins og jafnan áður.

Blaðið var föður mínum mjög kært og bar hann hag þess fyrir brjósti. Í tíð hans sem aðalritstjóra, á tíma fyrstu vinstri stjórnarinnar 1956 til 1959, urðu breytingar á blaðinu. Þá tók að losna um tengslin við Sjálfstæðisflokkinn þótt blaðið bilaði aldrei í stuðningi sínum við hann.

Picture-1_1594375926933Á þessum árum var gjarnan talað um sjálfstæðismenn sem Morgunblaðsmenn og stuðningsmenn annarra flokka voru kenndir við flokksblöð þeirra. Með því að fylgjast með í hvaða póstkassa blöð voru borin gátu menn getið sér til um stjórnmálaskoðanir viðkomandi. Þessi tími er liðinn og nú eru dagblöðin aðeins tvö og nýir miðlar gerast æ aðgangsharðari.

Mikil og náin vinátta skapaðist milli föður míns og Matthíasar Johannessens, ritstjóra og skálds. Hún mótaðist af gagnkvæmri virðingu og trausti sem endurspeglaðist í þróun og vexti blaðsins undir ritstjórn Matthíasar og verður mér hugsað til margra ánægjustunda með þeim á þessum degi og til Matthíasar sérstaklega sem fagnaði 90 ára afmæli í upphafi þessa árs.

Tíminn og aldurinn er afstæður. Mér þótti Matthías „gamall“ fyrir 50 árum. Hann var þá ekki nema 40 ára og hafði oft á orði eftir 10. júlí 1970 hve djúpstæð áhrif slysið hafði. Hann orti einnig um þau og Þingvelli en Matthías og Hanna, kona hans, dvöldust oft með foreldrum mínum á Þingvöllum.

Eitt af því sem þeir Matthías ræddu var ellefu alda afmæli Íslandsbyggðar árið 1974 og fól faðir minn Matthíasi formennsku í þjóðhátíðarnefndinni og var annar rithöfundur og ritstjóri, Indriði G. Þorsteinsson, framkvæmdastjóri hennar. Hátíðin var haldin með glæsibrag á Þingvöllum.

Nefndin ákvað meðal annars að út yrði gefin Saga Íslands. Ellefta og lokabindi sögunnar kom út árið 2016. Þar er fjallað um 20. öldina og vill ekki betur til en svo að slysið á Þingvöllum er sagt hafa orðið 11. júlí 1970.

Haldbestu heimildir um skoðanir og ævistarf manna er það sem skilja eftir sig sjálfir. Í þeim anda ákváðum við systkinin að skjalasafn föður okkar skildi varðveitt í Borgarskjalasafninu sem hafði jafnframt áhuga á að það yrði aðgengilegt á netinu í anda stafrænu byltingartímanna sem við lifum. Má skoða skjölin hér.