Vottuð kolefnisbinding jarðvegs
Landbúnaðarstefnan Ræktum Ísland! verður lögð til grundvallar samkvæmt nýbirtum stjórnarsáttmála þegar alþingi tekur af skarið um inntak landbúnaðarstefnu í fyrsta sinn í sögunni.
Hér hefur oftar en einu sinni verið hvatt til þess að í umræðum um kolefnisjöfnun og bindingu kolefnis sé þess gætt að um alþjóðlega vottaðar einingar sé að ræða. Það beri að gæta sín á þeim sem bjóði heimatilbúnar lausnir, reistar á eigin mati á ágæti þeirra, mati sem enginn annar viðurkennir í raun. Í heimi alþjóðaviðskipta ræður gæðavottun úrslitum um markaðs- og samkeppnisstöðu.
Landbúnaðarstefnan Ræktum Ísland! verður lögð til grundvallar samkvæmt nýbirtum stjórnarsáttmála þegar alþingi tekur af skarið um inntak landbúnaðarstefnu í fyrsta sinn í sögunni. Á fundum um Ræktum Ísland! um land allt var hvatt til þess að bændur gerðu kröfu um alþjóðlega vottun í viðskiptum um kolefniseiningar. Virk þátttaka bænda og kolefnisbúskapar setur æ stærri svip á framkvæmd grænnar stefnu. Á það var bent í þessu sambandi að nauðsynlegt væri fyrir Votlendissjóð að styðjast við annað en eigin vottun þegar hann stofnaði til viðskipta við landeigendur.
Í ljósi þessa var ánægjulegt að lesa grein eftir Einar Bárðarson, framkvæmdastjóra Votlendissjóðs, í Fréttablaðinu 30. nóvember undir fyrirsögninni: Vottuð kolefnisjöfnun. Þar segir:
„Ábyrg kolefnisjöfnun er grundvallarþáttur í heildstæðri loftslagsstefnu og hluti af vegferðinni að kolefnishlutleysi. Vottun kolefniseininga er ein helsta forsenda þess að hægt sé að nota þær á ábyrgan hátt til kolefnisjöfnunar; kerfið í heild þarf að vera óháð bæði seljendum og kaupendum og viðmiðin þurfa að samræmast alþjóðlega viðurkenndri aðferðafræði. [...]
Stjórn Votlendissjóðs hefur frá áramótum unnið að því að skoða og meta stöðu sjóðsins gagnvart alþjóðlegri vottun á kolefniseiningum sem verða til við endurheimt votlendis á vegum Votlendissjóðs. [...]Markmið vinnunnar er að innan fárra missera geti Votlendissjóður boðið íslenskum fyrirtækjum og fyrirtækjum á alþjóðamarkaði vottaðar einingar sem nota má til kolefnisjöfnunar.“
Þeir sem vinna að markmiðum Votlendissjóðs eiga náið samstarf við Landgræðsluna. Í dag klukkan 15.00 verður streymt á vegum hennar fyrirlestri Jóhanns Þórssonar faglega teymisstjóra jarðvegs og loftslags hjá Landgræðslunni um jarðveginn sem næststærsta kolefnisforðabúr jarðarinnar, ástand íslensks jarðvegs. Kynnir hann tölur um mat á losun frá röskuðu landi, bæði frá votlendi sem og frá þurrlendi.
Á COP26 í Skotlandi var áréttað að vernd og endurheimt vistkerfa, ásamt vernd líffræðilegrar fjölbreytni væru mikilvægar aðgerðir til að ná markmiðum loftslagssamningsins. Landgræðslan bendir á að hér sé bágt ástand vistkerfa gríðarlega stór þáttur í loftslagsáherslum landsins. Vernd og endurheimt vistkerfa séu því eitt af meginmarkmiðum aðgerðaáætlunar í loftslagsmálum. Ástand vistkerfa, þá sérstaklega jarðvegsins, skipti líka öllu máli eigi að ná settu marki um kolefnishlutlaust Ísland fyrir 2040.
Sókn í þessum anda einkennir stefnuna Ræktum Ísland! Það er til mikils að vinna að fræðilegar upplýsingar og vottaðar aðferðir séu kynntar sem best.