7.12.2023 9:58

Vörðukönnun og formælingar Ingu

 Í umræðum um PISA er bent á að einhverjir kunni að reyna að afvegaleiða þjóðina í skjóli skilningsleysis hennar á texta. 

Gunnlaugur Auðunn Júlíusson, fyrrv. sveitarstjóri, spyr að því á Facebook 6. desember hvort þeir sem bera ábyrgð á Vörðu, rannsóknastofnun vinnumarkaðarins, viti ekkert um framkvæmd kannanna.

Hann spyr vegna þess að þennan sama dag var sagt frá niðurstöðum könnunar sem Varða og Öryrkjabandalag Íslands gerðu og er talin sýna að stærsti hluti fatlaðs fólks á Íslandi eða 75% eigi erfitt með að ná endum saman, ríflega þriðjungur búi við fátækt og helmingur meti fjárhagsstöðu sína verri en fyrir ári. Í frétt Vísis af könnuninni sagði að stór hluti fatlaðs fólks á Íslandi byggi „við sárafátækt og almennt [væru] lífsskilyrði þess miklu verri en launafólks“. Haft var eftir formanni BSRB að velferðarkerfið hefði „brugðist“.

Gunnlaugur Auðunn bendir á að alls hafi 19.331 einstaklingi verið sendur tölvupóstur og boðið að vera með í þessari könnun. Samtals svöruðu 4.480 póstinum og óskuðu eftir gögnum eða 23.17% af heildinni. Loks voru það síðan 3.585 sem svöruðu könnuninni eða 18,5% af heildinni.

„Svo lágt svarhlutfall segir ekkert til um stöðuna hjá heildinni. Hún getur einungis gefið til kynna stöðuna hjá þeim 18,5% sem svöruðu,“ segir Gunnlaugur Auðunn.

Telur hann að jafnvel megi leiða líkur að því „að þeir hafi frekar svarað, sem töldu stöðu sína vera erfiða, því að þeim hafi fundist mikilvægt að koma þeim upplýsingum á framfæri“.

Bendir hann á að í niðurstöðum komi fram að 20% þeirra sem svöruðu búi við sárafátækt. Það vilji svo til að 20 % af 18,5% séu tæp fjögur prósent af heildinni en ekki 20% af heildinni.

Þá segir hann að niðurstöður könnunar séu marktækar þegar svarhlutfall sé hátt. Hafi um og yfir 60% aðspurðra svarað megi segja niðurstöðurnar sæmilega marktækar fyrir heildina. Það segi ekkert um stöðu heildarinnar að svörun sé aðeins 18,5% eins og í þessu tilviki.

Gunnlaugur Auður tekur fram til að valda ekki misskilningi að hann hafi þá trú að margt fatlað fólk sé ekkert ofsælt af stöðu sinni. Þessi sama skoðun er áréttuð af þeim sem þetta ritar.

Gagnrýnin vegna þessarar könnunar beinist ekki að hag fatlaðs fólks heldur að þeim sem kynna þessa könnun og láta eins og hún gefi raunsanna mynd af hag fatlaðra. Aðstandendur könnunarinnar nota hana á lokastigum fjárlagagerðar alþingis til að knýja á um hækkuð útgjöld til fatlaðra.

1112185Inga Sæland, foirmaður Flokkas fólksins, í ræðustól alþingis.

Marklausa könnunin varð til þess að Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, hrópaði í ræðustól alþingis 6. desember: „Ég segi þetta: Þetta eru ógeðsleg stjórnvöld. Ég fyrirlít þessi stjórnvöld. Þau kunna ekki að skammast sín.“

Lesskilningur er mjög til umræðu núna að gefnu tilefni vegna PISA-könnunarinnar á hæfni 15 ára grunnskólanemenda þar sem íslenskir nemendur fengu slæma útreið vegna lélegrar lestrarkunnáttu.

Í umræðum um PISA er bent á að einhverjir kunni að reyna að afvegaleiða þjóðina í skjóli skilningsleysis hennar á texta. Hér hefur verið nefnt eitt slíkt glænýtt dæmi og minnt á alþingismann sem gekk á lagið með formælingum.