26.1.2024 10:20

Vitundarvakning um gullhúðun

Gullhúðun vísar til heimasmíðaðra íþyngjandi ákvæða sem bætt er við skuldbindingar samkvæmt EES-samningnum. Hún kann einnig að birtast í aðgerðarleysi stjórnvalda.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra Guðlaugur Þór Þórðarson kynnti í gær (25. janúar) skýrslu sem dr. Margrét Einarsdóttir, lagaprófessor við Háskólann í Reykjavík, vann um innleiðingu EES-gerða í landsrétt.

Skýrslugerðina má rekja til þess að hópur hópur þingmanna með Diljá Mist Einarsdóttur í forystu bað ráðherrann um að skoðað yrði sérstaklega hvort svokölluð „gullhúðun“ hefði átt sér stað á málefnasviði ráðuneytisins á tíma- bilinu 2010 til 2022.

Gullhúðun vísar til heimasmíðaðra íþyngjandi ákvæða sem bætt er við skuldbindingar samkvæmt EES-samningnum. Hún kann einnig að birtast í aðgerðaleysi stjórnvalda. Þau láti undir höfuð leggjast að tryggja borgurum þann rétt sem EES-lög og reglur veita.

Á sínum tíma sat ég í starfshópi sem samdi skýrslu um EES-samstarfið og skilaði henni 19. september 2019. Þar minntum við á að á alþingi og á vettvangi stjórnsýslunnar væri lögð áhersla á að ganga ekki lengra en EES-gerðir krefðust við að íþyngja þeim sem gert væri að starfa eftir reglunum. Síðan sögðum við að í þessu efni væri„þó pottur brotinn“ og væri það gjarnan kallað gullhúðun „þegar stjórnvöld einstakra ríkja herða á íþyngjandi reglum EES-gerða til að ná fram sérgreindum markmiðum á heimavelli“.

Screenshot-2024-01-26-at-10.19.36

Margrét Einarsdóttir vísar meðal annars til þessara orða í skýrslu sinni en segja má að undanfarin misseri hafi orðið vitundarvakning hér vegna athugasemda í þessa veru. Sama dag og ofangreind skýrsla birtist skipaði utanríkisráðherra Bjarni Benediktsson starfshóp undir formennsku Brynjars Níelssonar, fyrrv. alþingismanns, um aðgerðir gegn gullhúðun EES-reglna.

Starfshópurinn skal taka mið af fyrri vinnu á þessu sviði og skoða einstök tilvik um gullhúðun sem hópurinn fær ábendingar um eða hafa komið fram á öðrum vettvangi. Getur hópurinn lagt til almennar úrbætur eða vegna einstakra mála sem eru til þess fallnar að draga úr áhættunni á að gullhúðun eigi sér stað. Dr. Margrét Einarsdóttir og María Guðjónsdóttir, lögfræðingur Viðskiptaráðs, eiga sæti í hópnum ásamt Brynjari.

Þarna er óskað eftir ábendingum til þessa hóps um einstök tilvik um gullhúðun en eins og áður segir felast þau ekki öll í að bætt sé við heimasmíðuðum íþyngjandi ákvæðum heldur er stundum látið hjá líða að innleiða ákvæði sem skapa borgurunum rétt.

Til marks um það má benda á kafla í skýrslunni Ræktum Ísland! við mótun fyrstu landbúnaðarstefnunnar hér. Þar er sérstakur kafli um framkvæmd EES-löggjafar og sagt að það kunni að vera þörf á að auka svigrúm innlendra framleiðenda landbúnaðarvara hér innan ramma EES-aðildarinnar til að innlend starfsskilyrði landbúnaðar séu sambærileg evrópskum.

Í Morgunblaðinu í dag (26. janúar) er bent á að án nauðsynlegra samninga við ESB um virðingu fyrir persónuverndarreglum fái íslenska lögreglan ekki farþegalista frá öllum flugfélögum sem hingað koma. Í þessu aðgerðarleysi felst ein tegund gullhúðunar og einnig í því að tryggja ekki borgurum hér að fullu réttinn sem felst í bókun 35 við EES-samninginn.