21.12.2023 10:34

Villur í fullveldismynd

Fullveldið er ekki óumbreytanlegt heldur er það tæki í þágu borgara viðkomandi ríkis til að tryggja frelsi þeirra og hagsæld í breytilegum heimi.

Ríkissjónvarpið sýndi 3. desember 2023 síðari hluta heimildarmyndar undir heitinu Fullveldi 1918. Snerist myndin um árin 1939 til 2018.

Í myndinni var farið hratt yfir sögu.

Screenshot-2023-12-21-at-10.29.23Skjáskot af vef ríkissjónvarpsins.

Látið var eins og Íslendingar hefðu engin eða gætu ekki haft nein áhrif á efni þeirra reglna sem hér eru innleiddar vegna aðildar þjóðarinnar að sameiginlega evrópska markaðnum með EES-samningnum. Þetta gefur alranga mynd af aðild íslenskra stjórnvalda að gerð þessara reglna. Þau geta bæði haft bein afskipti af smíði reglnanna með sérfræðilegri þátttöku og einnig óbein með aðild að fag- eða sérnefndum ESB, t. d. á sviði persónuverndar, lyfjamála, matvælaeftirlits og fjármálareglna.

Sagt var frá brottför varnarliðsins frá Íslandi árið 2006 og síðan tekið fram að við svo búið væru varnir landsins í höndum NATO. Virtist höfundur myndarinnar þeirrar skoðunar að tvíhliða varnarsamningur Íslands og Bandaríkjanna frá árinu 1951 hefði fallið úr gildi við brottför varnarliðsins. Það gerðist hins vegar ekki.

Varnarsamningurinn er í fullu gildi og undafarin misseri hefur hann reynst traustur rammi um aukin umsvif Bandaríkjahers hér á landi.

Í apríl á þessu ári tók ríkisstjórnin ákvörðun um að auka gildissvið samningsins, ef svo má orða það, með því að heimila kjarnorkuknúnum bandarískum kafbátum að sigla upp undir strönd Íslands til að fá þjónustu og skipta um áhafnir. Er unnið að umbótum á höfninni í Helguvík til að kafbátarnir geti lagst við bryggju hér eins og þeir gera í Færeyjum og Norður-Noregi.

Nú í þessum desembermánuði ársins 2023 hafa þrjú norræn ríki: Svíþjóð, Finnland og Danmörk ákveðið að feta í fótspor okkar frá 1951. Í höfuðborgum landanna hafa stjórnvöld boðað til blaðamannafunda og kynnt efni tvíhliða varnarsamninga við Bandaríkin. Þeir hafa að geyma svipuð ákvæði og er að finna í varnarsamningi okkar og umræður um efni samninganna eru á svipuðum nótum og hér var, athygli beinist að því hvort ákvæði séu um kjarnavopn og hvernig réttarstöðu bandarískra hermanna verði háttað.

Ríkissjónvarpið ætti að sjá sóma sinn í því að fela leikstjóra, framleiðanda og textahöfundi annars hluta heimildarmyndarinnar Fullveldi 1918 að leiðrétta þær missagnir í myndinni sem hér eru nefndar en ekki láta myndina vera óbreytta á vefsíðu sinni með þessum staðreyndavillum.

Við leiðréttingu textans mætti einnig koma að viðbót um að þannig hafi verið staðið að framkvæmd bókunar 35 við EES-samninginn af hálfu íslenskra stjórnvalda (dómstóla) að Íslendingar njóti ekki að fullu þess réttar sem samningurinn eigi að tryggja þeim, þeir sitji ekki við sama borð og aðrir á sameiginlega markaðnum. Hér beiti fámennur hópur sér gegn því í nafni fullveldis (!) að Íslendingar njóti þessa réttar og ríkisstjórnin komi ekki leiðréttingarfrumvarpi í gegnum þingið þótt yfirgnæfandi fjöldi umsagnaraðila telji þörf á því.

Fullveldið er ekki óumbreytanlegt heldur er það tæki í þágu borgara viðkomandi ríkis til að tryggja frelsi þeirra og hagsæld í breytilegum heimi.