14.12.2017 10:50

Víðtæk áhrif nýrra persónuverndarlaga

Breytingarnar sem eru í vændum á þessu sviði snerta einnig samkeppni og með auknum ráðstöfunarrétti einstaklinga yfir upplýsingum sem þá varðar í einstökum gagnagrunnum er vegið að stöðu ýmissa fyrirtækja.

Í mörg misseri hefur legið fyrir að í maí 2018 taka ný persónuverndarlög gildi á evrópska efnahagssvæðinu. Tilgangur þeirra er að veita einstaklingum aukið vald yfir nýtingu upplýsinga um þá í netheimum. Auðveldara verður að átta sig á hvað felst í samþykki við notkun þessara upplýsinga. Að öðrum þræði er tilgangurinn einnig að styrkja stöðu evrópskra fyrirtækja gagnvart risum á borð við Facebook, Amazon og Google.

Gera lögin m.a. ráð fyrir að einstaklingar geti krafist þess að upplýsingar sem eru nú þegar aðgengilegar um þá við leit í netheimum verði afmáðar af þeim sem geyma þær.

Í viðskiptablaði Morgunblaðsins fimmtudaginn 14. desember segir að um 35% aðildarfyrirtækja Samtaka iðnaðarins (SI) segist geta orðið gjaldþrota ef kæmi til álagningar hámarksfjárhæðar stjórnsýslusektar nýju laganna. Sektin getur verið allt að 4% af ársveltu samsteypu, að hámarki 20 milljónir evra eða 2,5 milljarðar króna. Könnun SI sýnir að aðeins 24% fyrirtækja innan samtakanna hafi hafið undirbúning vegna nýju laganna en 72% hafi ekki gert það.

Rætt er við Björgu Ástu Þórðardóttur, lögfræðing Samtaka iðnaðarins (SI), sem segir meðal annars:

„Nýja löggjöfin gerir meiri kröfur til fyrirtækja um persónuvernd en nú er. Þar eru nýmæli eins og að einstaklingar geta óskað eftir því að fyrirtæki eyði öllum gögnum um þá og aukin réttindi um að fá gögn afhent eða flutt þau á milli aðila.

Könnunin leiðir í ljós hve mikilvægt það er að stjórnendur fyrirtækja fari að skoða þetta og meti með hvaða hætti löggjöfin geti haft áhrif á þeirra fyrirtæki.“

Persónuvernd hefur efnt til kynningarfunda vegna nýju reglnanna og einnig skýrt frá nauðsyn þess að starfsfólki stofnunarinnar verði fjölgað, til þess þurfi aukin framlög á fjárlögum.

Háar sektarheimildir í EES-löggjöfinni eru til marks um áhersluna sem lögð er á að fyrirtæki fari að nýju lögunum og komi þar með til móts við kröfur um að tryggja sem best friðhelgi einstaklinga.

Breytingarnar sem eru í vændum á þessu sviði snerta einnig samkeppni og með auknum ráðstöfunarrétti einstaklinga yfir upplýsingum sem þá varðar í einstökum gagnagrunnum er vegið að stöðu ýmissa fyrirtækja, til dæmis banka og annarra fjármálafyrirtækja. Þar þurfa eigendur að bregðast við af framsýni og á skjótan hátt. Verður íslenska ríkið í stakk búið til þess sem stóreigandi í bankakerfinu? Skyldi þeirri spurningu verða svarað í umræðum um fjárlagafrumvarpið fyrir 2018 sem nú eru að hefjast?