30.6.2021 9:26

Viðspyrnan fyrir Ísland heppnaðist

„Með öflugu viðbragði hefur tekist að lágmarka tjón af völdum kórónuveirufaraldursins og leggja undirstöður fyrir öfluga viðspyrnu að honum loknum.“

Fjármála- og efnahagsráðuneytið birti mánudaginn 29. júní uppgjör ríkisreiknings fyrir árið 2020 og var afkoma ársins neikvæð um 144 ma.kr. samanborið við jákvæða afkomu upp á 42 ma.kr. árið 2019. Hvernig sem á mál er litið verður að telja þetta góða útkomu miðað við að á vormánuðum 2020 brustu allar meginforsendur áætlana í efnahags- og ríkisfjármálum vegna áhrifa heimsfaraldurs kórónuveiru. Eftir því sem leið á árið varð ljóst að Íslendingar, líkt og heimsbyggðin öll, stæðu frammi fyrir djúpstæðu efnahagsáfalli.

Að tillögu Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, tók ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur hverja ákvörðunina eftir aðra um að beita ríkisfjármálum til að styðja við hagkerfið, bjarga störfum, verja fjárhag heimilanna og skapa viðspyrnu fyrir verðmætasköpun í kjölfar kreppunnar. „Þetta öfluga viðbragð átti m.a. ríkan þátt í því að árið 2020 dróst innlend eftirspurn aðeins saman um 2% og ráðstöfunartekjur heimilanna jukust,“ segir í tilkynningu fjármála- og efnahagsráðuneytisins og haft er eftir Bjarna Benediktssyni:

„Í krafti sterkrar stöðu ríkissjóðs þurfti ekki að skerða þjónustu hins opinbera og tilfærslukerfin voru varin þrátt fyrir mikið tekjufall. Þannig var staðinn vörður um grunnþjónustu ríkisins á sama tíma og gripið var til umfangsmikilla efnahagsaðgerða til að mæta áhrifum faraldursins með það að markmiði að tryggja afkomu heimila og veita fyrirtækjum skjól og viðspyrnu. Ráðist var í umfangsmiklar fjárfestingar í innviðum og útgjöld til rannsókna og þróunar aukin verulega til þess að örva umsvif og skapa forsendur fyrir öflugum efnahagsbata að faraldrinum loknum. Áhrif þessara aðstæðna og nauðsynlegra aðgerða sjást glögglega á niðurstöðu ríkisreiknings 2020.“

Í tilkynningunni segir einnig:

„Með öflugu viðbragði hefur tekist að lágmarka tjón af völdum kórónuveirufaraldursins og leggja undirstöður fyrir öfluga viðspyrnu að honum loknum.“

Í dag (30. júní) snýst aðalforsíðufrétt Morgunblaðsins um að sérfræðingar spái meiri hagvexti í ár en þeir gerðu fyrr á árinu. Hjá Íslandsbanka hafi spáð um hagvöxt hækkað úr 2,7% í 3% í ár. Af hálfu Analyctica er spáð 3,5-3,7% hagvexti í ár en í vor var spáin 2,5-3%. Væntingavísitala Gallup er í hæstu hæðum. Hagstofan áætlar 7.600 laus störf á öðrum ársfjórðungi, sem er mikil fjölgun frá því sem áður var.

Oddvitar_HorpuOddvitar ríkisstjórnarflokkanna: Sigurðir Ingi Jóhannsson, Katrín Jakobsdóttir og Bjarni Benediktsson kynna viðspyrnu fyrir Ísland vegna faraldursins á einum af mörgum blaðamannafundum undanfarna mánuði.

Allt eru þetta jákvæðar fréttir um efnahag þjóðarinnar þegar sér til lands eftir óvissu undanfarna mánuði. Til að fast land verði undir fótum verður áfram að sýna aðgæslu gagnvart heimsfaraldrinum hér innan lands á meðan þess er beðið að aðrar þjóðir nái sama árangri í sóttvörnum og hér tókst.

Þegar holskeflan kom stóðum við efnahagslega vel að vígi vegna þess hve skipulega hafði verið staðið að því að treysta stoðir efnahagslífsins og lækka skuldir þjóðarinnar. Þegar komið er út úr skaflinum stöndum við betur að vígi en líklegt var talið um skeið. Þetta sýnir að fast og skynsamlega var haldið um stjórnvölinn og réttar þjóðhagslegar ákvarðanir teknar.