11.10.2017 10:05

VG spennir skattagildruna

Því verður seint trúað að Íslendingar ætli á kjördag að skipa sér í flokk með þeim sem boða aukna skattheimtu. Þá er Bleik brugðið.

Katrín Jakobsdóttir og Vinstri grænir boðuðu í vor breytingu á  fjármálaáætlun til næstu fimm ára. Þau vildu auka skattheimtu um alls 334 milljarða eða nær eina milljón á hvert mannsbarn. Um leið var stefnan sett á að auka útgjöld ríkissjóðs um 295 milljarða. Þetta kom skýrt fram í þingumræðum eins og auðvelt er að kynna sér í þingtíðindum á netinu.

Eins og hér hefur áður verið nefnt fer Katrín nú undan í flæmingi þegar á þetta er bent og notar orðið „hliðrun“ til að lýsa því sem fyrir sér vaki í skattamálum. Í orðinu felst að færa eitthvað úr einum stað í annan. Hér er um ræða ráðstafanir á 53 til 75 milljörðum króna á ári.  Þetta er álíka og öll fyrirtækin á landinu borga á ári í tekjuskatt.

Hvernig á að „hliðra“ þessum fjármunum innan skattkerfisins? Hvernig á að færa skattbyrði af þessu tagi frá einum á aðra? Auðvitað er ekkert slíkt sem vakir fyrir VG heldur einfaldlega gamaldags og „brútöl“ skattahækkun.

Forystumenn 12 stjórnmálaflokka hittust í sjónvarpssal sunnudagskvöldið 8. október. Þar spurði Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, Katrínu Jakobsdóttur hvernig VG ætlaði að standa að framkvæmd þessarar stefnu sinnar. Katrín svaraði:

„Já, já, við höfum auðvitað sett fram hugmyndir um það hvernig mætti afla þessara tekna með sanngjarnari hætti en gert er undir þeirri stefnu sem Sjálfstæðisflokkurinn hefur rekið, þannig að það leggist t.a.m. í gegnum gjöld á auðlindum, t.a.m. í gegnum hátekjuskatta eða einhverskonar stóreignaskatta...“

Í þessum orðum fer ekkert á milli mála. Það er ekki um neina „hliðrun“ að ræða heldur hugmyndir um aukna skatta, ekki nýja í sjálfu sér því að skattgreiðendur kynntust framkvæmd þessarar stefnu í fjármálaráðherratíð Steingríms J. Sigfússonar, þáv. formanns VG.

Í skjóli hrunsins ákvað VG með stuðningi Samfylkingarinnar að innleiða sósíalíska skattheimtu hér. Á það var bent að í löndum þar sem þetta væri gert flyttist fólk einfaldlega úr landi, léti ekki bjóða sér ofríkið. Þá sagði Steingrímur J. að vegna fjármagnshaftanna þyrfti hann ekki að óttast það hér. Ætlar VG að beita sér fyrir nýjum höftum til að loka fólk inni í skattagildrunni sinni?

GetFile.php-3

Elías Elíasson verkfræðingur skrifar grein í Morgunblaðið í dag (11. október) um hættuna af skattaæði VG og Samfylkingarinnar og birtir myndina sem hér fylgir. Í greininni segir meðal annars:

„Í tengslum við skattlagningu þurfum við að muna, að íslenska þjóðin býr í samfélagi þjóðanna á hnettinum Jörð og mörg þau samfélög vilja gjarnan fá til sín það góða fólk sem hér býr. Því getur einstaklingur, sem sér fram á tekjulækkun eða aukna skattlagningu flúið Ísland ef honum ofbýður. Mönnum er væntanlega enn í fersku minni flótti heilbrigðisstétta úr landi fyrir fáum árum vegna lágra launa. Atvinnurekendur og fjárfestar geta líka flúið, með alvarlegum afleiðingum fyrir þjóðarbúið, en þetta er bara ein ástæðan fyrir því, að stilla verður skattlagningu í hóf og trúa loforðum varlega.“

Því verður seint trúað að Íslendingar ætli á kjördag að skipa sér í flokk með þeim sem boða aukna skattheimtu. Þá er Bleik brugðið. Að halda að VG ætli ekki að standa við skattastefnu sína má jafna við það þegar menn kusu VG vorið 2009 í þeirri trú að flokkurinn mundi ekki standa að umsókn um aðild að ESB.