14.5.2019 9:34

Vel unnið álit utanríkismálanefndar

Þar er komið til móts við háværa gagnrýni þess hóps sem helst hefur beitt sér gegn innleiðingu O3.

Meirihluti utanríkismálanefndar alþingis sendi undir kvöld mánudaginn 13. maí frá sér álit á tillögunni til þingsályktunar um þriðja orkupakkann (O3). Í álitinu sem lesa má hér   er farið yfir það sem borið hefur hæst í umræðunum.

Lokakafli álitsins fjallar um ráð yfir íslenskum orkuauðlindum. Þar segir:

„Þriðji orkupakkinn hefur eins og áður segir engin áhrif á yfirráð Íslands yfir náttúruauðlindum sínum. Þessi skilningur var áréttaður í sameiginlegri yfirlýsingu Guðlaugs Þórs Þórðarsonar utanríkisráðherra og Miguels Arias Canete, framkvæmdastjóra orkumála í framkvæmdastjórn Evrópusambandsins, frá 20. mars sl. Í yfirlýsingunni kom fram að gildandi ákvæði þriðja orkupakka Evrópusambandsins hefðu engin áhrif á fullveldi ríkisstjórnar Íslands yfir orkuauðlindum Íslands og að ákvörðunarvald um raforkustrengi milli Íslands og innri raforkumarkaðar Evrópusambandsins lægi alfarið hjá íslenskum stjórnvöldum. Yrði sæstrengur lagður í framtíðinni hefði ESA ákvörðunarvald um málefni sem ná yfir landamæri en ekki ACER líkt og samþykkt hefði verið í aðlögunartexta sameiginlegu EES-nefndarinnar sem endurspeglar sjálfstæði stofnana EFTA undir tveggja stoða kerfi EES-samningsins.

EFTA-ríkin þrjú innan EES, Ísland, Noregur og Liechtenstein, lögðu fram sameiginlega yfirlýsingu í sameiginlegu EES-nefndinni 8. maí sl. þar sem sérstaða Íslands hvað varðar innri raforkumarkað Evrópusambandsins var enn frekar áréttuð. Í yfirlýsingunni kemur fram að ákvæði þriðja orkupakkans hafi engin áhrif á full yfirráð EFTA-ríkjanna innan EES yfir orkuauðlindum sínum, ráðstöfun þeirra og hagnýtingu. Ákvarðanir um samtengingu raforkukerfa þeirra og orkukerfis innri markaðar Evrópusambandsins væru ávallt á forræði þeirra. Kæmi til lagningar sæstrengs í framtíðinni væri það fyrirkomulag að ESA [Eftirlitsstofnun EFTA] úrskurðaði um ágreiningsmál varðandi Ísland en ekki ACER í fyllsta samræmi við tveggja stoða kerfi EES-samningsins.

OrkulFramangreindar yfirlýsingar hafa bæði pólitískt og þjóðréttarlegt gildi. Í tilkynningu Íslands til EFTA-skrifstofunnar um afléttingu stjórnskipulegs fyrirvara verður vísað sérstaklega bæði til yfirlýsingar framkvæmdastjóra orkumála í framkvæmdastjórn ESB og utanríkisráðherra frá 20. mars sl. og til sameiginlegrar yfirlýsingar EFTA-ríkjanna innan EES sem gefin var í sameiginlegu EES-nefndinni 8. maí sl. Þar með er skjalfestur sá sameiginlegi skilningur allra aðila að Ísland hafi eftir sem áður full yfirráð yfir orkuauðlindum sínum.“

Þarna er komið til móts við háværa gagnrýni þess hóps sem helst hefur beitt sér gegn innleiðingu O3. Bæði stjórnskipulega innan lands og stjórnmálalega út á við hefur verið búið tryggilegar um ráð Íslendinga yfir eigin orkulindum gagnvart ESB en, meðal annars á þeim tíma þegar beinna áhrifa þeirra sem nú skipa sér í fremstu röð gagnrýnenda gætti, oft af miklum þunga.