12.2.2021 9:31

Varnir við landamærin

Þegar upp er staðið skiptir líklega hert varsla á landamærunum sköpum við að halda útbreiðslunni hér í skefjum.

Gífurlega mikið er í húfi fyrir daglegt líf landsmanna að þeir fái notið þess árangurs sem náðst hefur með samstilltu átaki þeirra til að halda kórónuveirunni í skefjum hér innan lands á sama tíma og nágrannaþjóðir glíma við veiruna í alls konar myndum.

Þegar upp er staðið skiptir líklega hert varsla á landamærunum sköpum við að halda útbreiðslunni hér í skefjum. Haldið er uppi ströngu landamæraeftirliti og skýrar kröfur eru gerðar til þeirra sem til landsins koma um að fylgt sé settum reglum.

Landamærunum hefur þó aldrei verið lokað. Unnt hefur verið að fljúga til og frá landinu og siglingar stöðvast ekki. Á hinn bóginn gilda strangar reglur og náið er fylgst með framkvæmd þeirra. Þá er haft auga með þeim sem skyldaðir eru til að fara í einangrun eða sóttkví. Tölur um fjölda þeirra eru birtar reglulega.

971252Þessi mynd var tekin 2017 þegar fyrsta sjálfvirka landamærahliðið var opnað á Keflavíkurflugvelli. Nú eru slík hlið ekki notuð vegna farsóttarinnar (mynd mbl.is Hilmar Bragi Bárðarson).

Sé tekið mið af kórónuveirusmitum á hverja 100 þúsund íbúa síðustu 14 daga eru smitin fæst hér meðal EES-ríkjanna. Vel horfir í Noregi en verst í Portúgal eins og málum er nú háttað. Bretland er utan EES og þess vegna ekki talið með af Sóttvarnastofnun Evrópu.

(Þessar upplýsingar eru sóttar á mbl.is en þar segir blaðamaður að Bretar séu „hvorki í ESB né EES“. Í þeim orðum birtst vanþekking. Í EES eru öll ESB-ríkin auk Íslands, Liechtensteins og Noregs. EES er stærra mengi en ESB. Í fréttinni er ekki minnst á hvort Sóttvarnastofnun Evrópu líti til Sviss sem er EFTA-ríki en ekki í EES. Bretar eru hvorki í EES né EFTA.)

Vegna góðrar smitstöðu hér sagðist Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir, í gær (11. febrúar) ætla að gera tillögur til aukins frjálsræðis innan lands. Við eigum nú að virða reglur sem gilda til 1. mars. Hann sagði við blaðamenn:

„En við erum sérstaklega að skoða landamærin í ljósi þess ef við ætlum að aflétta meira þá verðum við að vera eins trygg og mögulegt er að það leki ekki í gegnum landamærin.“

Meðal annars mætti skerpa á ýmsum verkferlum og sannreyna upplýsingar sem ferðamenn koma með; hvort þeir gefi upp rétt símanúmer, heimilisfang og svo framvegis.

„Það er hægt að krefja fólk um neikvætt vottorð áður en það kemur eins og er gert í mjög mörgum Evrópulöndum. Síðan er hægt, ef vafi leikur á að til dæmis fólk muni halda sóttkví, að skylda fólk til að vera í farsóttahúsi meðan á sóttkví stendur. Þetta eru svona helstu atriðin sem hægt væri að nýta sér.“

Öllu þessu er almennt vel tekið. Fyrir liggur hve fljótt getur farið á verri veg sé ekki fyllsta öryggis gætt við landamærin. Þetta á auðvitað við um fleiri vágesti en farsóttina.

Ekkert heyrist núna í No Borders-samtökunum sem berjast fyrir afnámi landamæravörslu. Þá eru hinir hljóðir sem segja að Schengen-aðildin komi í veg fyrir eftirlit á landamærunum. Svo er auðvitað ekki en við framkvæmd eftirlitsins ber að fylgja ákveðnum, gagnsæjum reglum á grundvelli ákvarðana sem stjórnvöld viðkomandi ríkis taka. Hér er nauðsynlegt að ræða aukna landamæravörslu í ljósi sóttvarnareynslunnar og herða hana almennt.