19.4.2021 9:52

Vanhæfni RÚV gagnvart Samherja

Atlagan að Sigrúnu Stefánsdóttur sýnir dómgreindarbrest við mat á áhrifum ítaka Samherja. Hvenær leiðir bresturinn til vanhæfni RÚV til að fjalla um málefni Samherja?

Í stað þess að una niðurstöðu siðanefndar ríkisútvarpsins (RÚV) um að hann hafi brotið „alvarlega“ gegn siðareglum RÚV ákvað Helgi Seljan fréttamaður að krefjast þess 10. apríl 2021 að siðanefndin tæki málið upp að nýju. Nefndin hafnaði beiðni Helga með bréfi 16. apríl.

Helgi beindi spjótum sínum að Sigrúnu Stefánsdóttur sem starfsmannafélag RÚV tilnefndi í september 2020 þegar kvörtun Samherja um brot á siðareglum RÚV barst Stefáni Eiríkssyni útvarpsstjóra. Þá sat engin siðanefnd RÚV og voru góð ráð dýr fyrir útvarpsstjóra. Hann skipaði nefndina á skömmum tíma að fengnum tilnefningum, formanninn þó án tilnefningar.

Eftir að siðanefndin lýsti Helga brotlegan bárust furðufréttir úr Efstaleiti um að gildandi siðareglum hefði ef til vill verið laumað yfir starfsmenn þar án vitundar þeirra. Fundur um afgreiðslu reglnanna hefði verið á sama tíma og fréttamenn héldu reglulega fundi sína. Hönnuð var samsæriskenning um að þáverandi útvarpsstjóri,. Magnús Geir Þórðarson, hefði beitt fréttamennina leikbrögðum í málinu enda hefði hann alltaf verið betri leikstjóri en útvarpsstjóri.

Dalvik-iceland-june-20-2020samherji-fish-factory-facade-2EA2PR0Varla fór fram hjá starfsmannafélagi RÚV í september 2020 hvers vegna útvarpsstjóri bað félagið að tilnefna með hraði fulltrúa í siðanefnd RÚV, kvörtun hefði borist um siðareglubrot frá Samherja sem beindist gegn mörgum starfsmönnum RÚV.

Hlýtur nú að hafa komið útvarpsstjóra og siðanefndinni á óvart að Helgi Seljan, starfsmaður RÚV, teldi úrskurð nefndarinnar ólögmætan vegna setu Sigrúnar Stefánsdóttur, fulltrúa RÚV-starfsmanna, í henni. Hún sinnti í raun hagsmunagæslu fyrir Samherja vegna stuðnings fyrirtækisins við Vísindaskóla unga fólksins og fjölmiðilinn N4.

Í höfnuninni á beiðni Helga Seljans segir siðanefnd RÚV:

„Hvað varðar hæfi eins nefndarmanna, Sigrúnar Stefánsdóttur, sem tilnefnd var í siðanefnd RÚV af starfsmannafélagi RÚV eftir að kæra barst, þá kemur ekkert fram í bréfi þínu sem gefur til kynna að hún hafi ekki verið hæf í skilningi stjórnsýslulaga til að kveða upp úrskurðinn. Afmarkað verkefni Sigrúnar er varðar Vísindaskóla unga fólksins, sem er vikulangt námskeið fyrir börn á aldrinum 11-13 ára og er innan Háskólans á Akureyri, lá fyrir og er greitt af Háskólanum á Akureyri, þó starfsemi skólans sé vissulega studd af 20-25 fyrirtækjum á Akureyri. Seta hennar í stjórn fjölmiðilsins N4, undanfarin sjö ár, sem sjálfstæður stjórnarmaður er öllum kunn. Hún er ekki eigandi fjölmiðilsins né á fjölmiðillinn sérstakra og verulegra hagsmuna að gæta í málinu. Fjölmiðillinn er jafnframt með skýrar reglur um ritstjórnarlegt sjálfstæði og stjórn hans kemur að engu leyti að ritstjórn og daglegum störfum. Því hefur ekkert komið fram sem raskar því mati að hún hafi verið hæf til að kveða upp úrskurð í málinu og ekkert komið fram sem dregur óhlutdrægni hennar með réttu í efa.“

Atlagan að Sigrúnu Stefánsdóttur sýnir dómgreindarbrest við mat á áhrifum ítaka Samherja. Hvenær leiðir bresturinn til vanhæfni RÚV til að fjalla um málefni Samherja? Allt þetta mál snýst nú um trúverðugleika RÚV en ekki einstakra starfsmanna þar.