31.3.2017 9:55

Valdið til rannsókna er hjá þingmönnum

Alþingi samþykkti árið 2011 lög um rannsóknarnefndir alþingis. Ein slík nefnd skilaði áliti miðvikudaginn 29. mars og afhjúpaði blekkingarleik Ólafs Ólafssonar vegna kaupa á Búnaðarbankanum. Ályktun alþingis þarf til að hrinda slíkri rannsókn af stað.

Katrín Jakobsdóttir, formaður vinstri-grænna, sagði á alþingi fimmtudaginn 30. mars að niðurstaða rannsóknarnefndar alþings vegna sölunnar á Búnaðarbankanum sýndi „að eftirlitsstofnanir könnuðu á sínum tíma ekki til hlítar aðkomu Hauck & Aufhäuser bankans við sölu ríkisins á hlut í Búnaðarbankanum“.

Meðal þeirra sem rannsakað hafa þessi viðskipti áður er ríkisendurskoðun. Sveinn Arason, núv. ríkisendurskoðandi, segir í Morgunblaðinu í dag:

„Við höfum ekki rannsóknarheimildir, heldur þurfum við bara að trúa því sem að okkur er rétt og við höfum beðið um. Ef við teljum að við höfum ekki fengið réttar upplýsingar og við höfum sterka vísbendingu um að lög hafi verið brotin, þá höfum við alltaf þann möguleika að vísa málinu til lögreglu til frekari rannsóknar.“

Rannsakendurnir sem skiluðu skýrslu sinni miðvikudaginn 29. mars höfðu sérstakar heimildir sem alþingi veitti þeim þegar rannsókninni var hrundið af stað. Katrín Jakobsdóttir sagði einnig í ræðu sinni:

„Sumir tala þannig að ekki sé ástæða til að ráðast í frekari rannsókn á einkavæðingu bankanna nema einhver ný gögn komi fram eins og í tilfelli Hauck & Aufhäuser bankans, vilja sem sagt bara sitja og bíða eftir að eitthvað dúkki upp. Það sem við sjáum hins vegar í þessu máli er að eftirlitsstofnanir fengu á sínum tíma í hendurnar gögn og ábendingar sem kölluðu á rannsókn, reikningar þessara félaga stemmdu einfaldlega ekki, en ekki var ráðist í fullnægjandi rannsókn. Þeir sem tala þannig að ekki sé ástæða til frekari rannsókna nema ný gögn komi fram hljóta að velta því fyrir sér hvort ekki sé rík ástæða til að ráðast í ítarlega rannsókn á allri einkavæðingu bankanna árið 2003.“

Í lok ræðu sinnar lagði Katrín þessa spurningu fyrir Benedikt Jóhannesson, fjármála- og efnahagsráðherra:

„Er ekki ástæða til að ljúka rannsókn á þessu ferli [einkavæðingarinnar] þannig að við fáum allt fram um þetta mál sem hefur hvílt eins og mara á þjóðinni?“

Svar ráðherrans var stutt:

„Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Svar mitt er einfalt: Jú, það er ástæða til að ljúka rannsókn á þessu ferli.“

Lög um rannsóknarnefndir alþingis, nr. 68/2011, sem tóku gildi 25. júní 2011 gera ráð fyrir því að forseti alþingis skipi rannsóknarnefnd ef alþingi samþykkir þingsályktun þar um til þess að rannsaka mikilvæg mál sem almenning varða. Samkvæmt 1. gr. laganna skal í tillögu um skipun rannsóknarnefndar kveðið á um hvað rannsaka eigi, hvernig haga skuli rannsókninni og um fjölda nefndarmanna. Lög um rannsóknarnefndir gera almennt ráð fyrir því að stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd þingsins leggi fram tillögu til þingsályktunar um skipun rannsóknarnefndar.

Nú vaknar spurning um hvort Katrín Jakobsdóttir beitir sér fyrir að sett verði á laggirnar, með ályktun alþingis, rannsóknarnefnd sem nái til þess sem hún lýsti í máli sínu en hefur ekki verið skilgreint til hlítar.

Lögin voru sett 2011, alþingi ályktaði þó ekki fyrr en 2016 um að rannsaka skyldi það sem gerðist varðandi söluna á Búnaðarbankanum í lok árs 2002 og upphafi árs 2003. Þegar ályktunin var samþykkt var stjórn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks með meirihluta á alþingi. Vilji menn gera þessi rannsóknir á vegum alþingis að flokkspólitísku deilumáli má spyrja: Hvers vegna beitti meirihluti þings í stjórnartíð Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar sér ekki fyrir rannsóknarnefnd alþingis á einkavæðingunni?

Þingmenn skyldu þó ekki hafa verið hræddir eftir að meirihluti þeirra hljóp á sig í landsdómsmálinu?