5.9.2023 10:04

V/s Freyja fyllt í Færeyjum

Verður ekki annað séð en kaup Freyju á olíu í Þórshöfn á dögunum séu innan þess ramma sem mótaður er í áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Á tímum netviðskipta sem spanna alla jarðarkringluna og allir nýta sér hér á landi er undarlegt að olíukaup íslenskra varðskipa í Færeyjum þyki fréttnæm.

Slíka frétt er að finna í Morgunblaðinu í dag (5. september). Sagt er frá þátttöku áhafnar varðskipsins Freyju í sameiginlegri æfingu með áhöfnum Brimils, varðskips færeysku landhelgisgæslunnar, og Hvidbjornens, varðskips danska sjóhersins, við Færeyjar í síðustu viku. Þá hafi tækifærið verið notað til að kaupa olíu á varðskipið í Þórshöfn fyrir tæpar 80 milljónir króna og er reiknað út að gæslan hafi þannig sparað 25 til 30 milljónir króna þar sem hún þurfi ekki að greiða virðisaukaskatt í Færeyjum.

Leitað er skýringa hjá Ásgeiri Erlendssyni, upplýsingafulltrúa landhelgisgæslunnar. Hann segir að eðli starfsemi gæslunnar sé þannig að ógjörningur sé að einskorða kaup á eldsneyti við Ísland. Vegna þröngrar fjárhagsstöðu hafi auk þess ekki þótt annað koma til greina en fylla Freyju af olíu í Færeyjum.

Vartdskipid-freyjaVarðskipið Freyja (mynd: LHG.is).

Blaðið minnir á að ríkisendurskoðun hafi sagt í úttekt sem birt var í ársbyrjun 2022 „að Landhelgisgæslan ætti að hætta olíutöku í Færeyjum“. Ásgeir segir að til að þjónusta gæslunnar „skerðist sem minnst“ þurfi „að horfa í hverja einustu krónu og tugmilljónir skipta töluverðu máli við slíkar aðstæður“.

Stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd alþingis fjallaði um fyrrnefnda úttekt ríkisendurskoðunar á verkefnum og fjárreiðum gæslunnar. Álit nefndarinnar var birt 31. maí 2022.

Þegar skýrsla ríkisendurskoðunar birtist beindist athygli einkum að gagnrýni á þremur þáttum: flugi TF-SIF fyrir landamærastofnun Evrópu, Frontex; olíukaupum varðskipa í Færeyjum og notkun flugfara og skipa landhelgisgæslunnar í opinberum erindagjörðum æðstu stjórnenda ríkisins.

Í skjali þingnefndarinnar er mildilega tekið á öllum þessum aðfinnsluefnum. Ekki er gerð athugasemd við að TF-SIF sinni verkefnum fyrir Frontex en leitað verði leiða til að auka viðveru vélarinnar hér á landi. Vegna olíukaupanna er því beint til dómsmálaráðuneytisins að í samráði við fjármála- og efnahagsráðuneytið verði leitað leiða „til að tryggja að kaup landhelgisgæslunnar á olíu hér á landi hafi ekki neikvæð áhrif á úthaldsdaga varðskipanna“. Þingnefndin telur að réttlætanlegt kunni að vera að nýta loftför og skip LHG í opinberum erindagjörðum æðstu stjórnenda ríkisins. Nefndin leggur þó ríka áherslu á að settar verði reglur um þessi afnot.

Alþingi fór á sínum tíma fram á þessa úttekt ríkisendurskoðunar og alþingi á síðasta orðið um starfsramma gæslunnar. Verður ekki annað séð en kaup Freyju á olíu í Þórshöfn á dögunum séu innan þess ramma sem mótaður er í áliti stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar.

Alvarlegasta athugasemdin í úttektinninni sneri að ábyrgðarkeðju íslenskra varnarmála. Ríkisendurskoðun og stjórnkerfis- og eftirlitsnefnd alþingis töldu ekki duga lengur að skilgreina hlutverk landhelgisgæslunnar vegna varnartengdra verkefna með þjónustusamningi. Á þessum vanda yrði að taka. Það hefur ekki verið gert.