29.10.2020 10:49

Umræður í stað valdaráns

Vegna þess að tillögur stjórnlagaráðsins eru innbyrðis ósamrýmanlegar þegar grannt er skoðað forðast Ragnar Aðalsteinsson og félagar að ræða efnisatriði málsins.

Ragnar Aðalsteinsson hrl. einblínir á ferlið við að breyta stjórnarskránni þegar hann segir að til greina komi að beita valdaráni, að vísu ekki blóðugu, til að hrifsa stjórnarskrárvaldið frá alþingi og færa það „til þjóðarinnar“ eins og það er orðað en þar á hann meðal annars við 25 manna stjórnlagaráð sem var skipað eftir að val manna í það var talið ógilt af hæstarétti. Má segja að valdaránið hafi þá hafist á æðstu stöðum fyrir tilstilli Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra.

Vegna þess að tillögur stjórnlagaráðsins eru innbyrðis ósamrýmanlegar þegar grannt er skoðað forðast Ragnar og félagar að ræða efnisatriði málsins.

IMG_2433Jóhann J. Ólafsson stórkaupmaður birtir grein í Morgunblaðinu í dag um eitt helsta efnislega deilumálið í stjórnlagaumræðunum, auðlindaákvæðið, og veltir fyrir sér hvers vegna ágreiningur um stjórn fiskveiða leiði til þess að ekki sé látið við það sitja að setja löggjöf um þetta efni í stað þess að ákvæði sé sett um náttúruauðlindir í stjórnarskrána. Jóhann segir:

„Frumvarp um náttúruauðlindir í stjórnarskrá verður mesta miðstýring Íslandssögunnar nái það í gegn og alger misnotkun á stjórnarskránni.

Það er staðreynd að landsmenn hafa haft frjálsan aðgang að auðlindum náttúrunnar frá landnámi í ellefu hundruð og fimmtíu ár. Þeir hafa með dugnaði og iðjusemi við erfiðar aðstæður unnið verðmæti úr þessum auðlindum, sem eru grundvöllur efnahags þjóðarinnar í dag.

Nú á að setja stórkostleg verðmæti í flokk eigna, m.a. 60 þúsund ferkílómetra landsins, þar sem eignarréttur einstaklinga er útilokaður. Með þessu er verið að taka stór verðmæti undan vernd 72. gr. stjórnarskrárinnar og fara á bak við borgarana. Til að bíta höfuðið af skömminni á að setja þetta ákvæði í mannréttindakafla stjórnarskrárinnar með 72. grein, sem verndar eignarréttinn. Þetta er svívirðing.“

Hér er fast að orði kveðið en vikið að viðhorfum sem réttmætt er að hafa í heiðri þegar um þetta mál er rætt. Sagan sýnir að oft eru stigin hættuleg skref á stjórnmálavettvangi þegar hver talar upp í annan og menn telja sér síðan trú um, með aðstoð sérfróðra manna, að þeir hafi höndlað sannleikann við lausn á viðkvæmu álitaefni.

Jóhann segir að fyrir mönnum vaki miðað við hugmyndir sem hafi verið reifaðar að gera allar náttúruauðlindir landsins án þess að þær séu skilgreindar að ríkiseign en notað sé orðið „þjóðareign“ í blekkingarskyni vegna tortryggni af langri reynslu í garð ríkiseigna. Eignarréttur á náttúruauðlindunum eigi ekkert erindi í stjórnarskrána, allt sem hann varðar megi ákveða með lögum. „Auk þess heyra allar náttúruauðlindir landsins undir fullveldi íslenska ríkisins. Stjórnarskrárbinding eignarréttar ríkisins skapar gífurlega breytingu á stjórnskipunarrétti landsins. Verið er að binda hendur Alþingis og minnka völd þess og áhrif,“ segir Jóhann J. Ólafsson.

Þakka ber að rætt sé um efnisatriði stjórnarskrárbreytinga frekar en þvælt sé um ferli þeirra og viðraðar hugmyndir um valdarán þegar menn verða rökþrota. Efnisatriði ráða úrslitum í stjórnarskrármálinu en ekki veggjakrot um ferlið.