11.2.2018 11:10

Um þaulskipulega aðgerð og dómara

Hafi verið um „þaulskipulega aðgerð“ gegn dómurum að ræða í desember 2016 hvaða orð á að nota um aðförina að dómsmálaráðherra?

Um miðjan desember 2016 birti Þyrí Steingrímsdóttir, hæstaréttarlögmaður og ritstjóri Lögmannablaðsins, gagnrýni á nefnd um dómarastörf og eftirlitskerfi stjórnsýslunnar með dómstólum. Þar sagði meðal annars:

„Sú sem þetta ritar hefur enga vitneskju um hvaða reglur gilda um málsmeðferð hjá nefndinni, þrátt fyrir að hafa reynt að leita upplýsinga um það. Ekki liggur fyrir hvort þær reglur eru yfirhöfuð til eða hvar þær eru birtar ef svo er. Þá virðist engin leið að vita hvort og þá hvaða kvartanir hafi borist nefndinni, hvað hafi átt sér stað á fundum hennar, um hvað álit hennar hafi fjallað o.s.frv. Kannski eru þessar reglur til staðar, kannski ekki. Kannski eru gögn til staðar, kannski ekki.“

Þrátt fyrir þessa misbresti gaf nefnd um dómarastörf út sérstaka yfirlýsingu þar sem því var hafnað að skráningu mála hjá nefndinni væri ábótavant.

Tæpu ári síðar, undir lok nóvember 2017, gerði Skúli Magnússon, formaður Dómarafélagsins, umræðurnar um dómara í desember 2016 að umtalsefni og lýsti þeim á þennan veg:

 „Allt ber þetta að sama brunni: um var að ræða þaul­skipu­lagða aðgerð til að koma höggi á trú­verð­ug­leika íslenskra dóm­stóla, hugs­an­lega að reyna knýja til­tekna dóm­ara til að segja af sér emb­ætt­i.“

Skúli sagði ekki hafa verið upplýst hvað þeim gekk til „sem öfl­uðu per­sónu­legra gagna með ólög­mætum hætti [úr Glitni] - vænt­an­lega með því að greiða fyrir þau - og komu þeim til til­tek­inna fjöl­miðla“.

Eftir nýlegan dóm um birtingu gagna úr skjalasafni Glitnis er spurning hvort formaður Dómarafélagsins kvað ekki of fast að orði um lögbrot þeirra sem stóðu að birtingu Glitnis-gagnanna um dómara.

Skúli Magnússon sagði:

„Upphaflega var fréttin sú að tilteknir dómarar, þ.á m. forseti Hæstaréttar, hefðu ekki tilkynnt um hlutabréfaeign sína samkvæmt gildandi lögum og reglum. Sá fréttaflutningur reyndist þó fljótt haldlaus, a.m.k. að öllu verulegu leyti. Þeir dómarar sem um var að ræða, a.m.k. þeir sem fjölmiðillinn hafði mestan áhuga á, höfðu tilkynnt um hlutabréfaeign sína samkvæmt reglum þótt nefnd um störf dómara hefði illa haldið á skráningu upplýsinga hjá sér.“

Hér eru feitletruð orð vegna þess að enn á ný verða vandræði vegna þess að nefnd sem snertir dómara, nú skipun þeirra, neitar að birta gögn um störf sín. Skemmst er að minnast hrokans sem Jakob R. Möller hrl. sýndi settum dómsmálaráðherra þegar hann bað um upplýsingar um störf nefndar sem lögmaðurinn stýrði vegna skipunar í embætti átta héraðsdómara.

Morgunblaðið hefur nú upplýst að Gunnlaugur Claessen, formaður dómnefndar vegna umsókna um dómarastöður við Landsrétt, segi fundargerðir nefndarinnar ekki verða afhentar að sinni. Nefndin muni ræða málið síðar.

Gunnlaugur vék að fundargerðunum í bréfi til dómsmálaráðherra 28. maí 2017: „Tekið skal fram að þá vantar fundargerðir síðustu funda fyrir starfslok nefndarinnar þar sem málefnið var eðli máls samkvæmt einkum rætt. Samkvæmt upplýsingum þáverandi starfsmanna nefndarinnar hefur ekki gefist tími til að færa þær fundargerðir vegna anna við önnur störf,“ sagði Gunnlaugur.

Hæstiréttur dæmdi dómsmálaráðherra fyrir að hafa ekki rannsakað til hlítar öll málsatvik áður en ráðherrann lagði fram tillögu um breytingu á tillögu nefndarinnar. Nefndin neitaði ráðherranum um upplýsingar. Nú fjalla dómarar um skaðabótakröfur reistar á þessum undarlega dómi og einnig er dregið í efa að landsréttur sé starfhæfur. Þingnefnd hefur gert hlé á rannsókn sinni svo að umboðsmaður alþingis geti kannað málið.

Hafi verið um „þaulskipulega aðgerð“ gegn dómurum að ræða í desember 2016 hvaða orð á að nota um aðförina að dómsmálaráðherra?

Taki dómarar eða fulltrúar þeirra sæti í stjórnsýslunefndum ber þeim að gæta stjórnsýslulaga, meðal annars að sjá til þess að fundargerðir séu skráðar. Í Landsdómi sakfelldu þeir meira að segja forsætisráðherra fyrir að sjá ekki til þess að skráð yrði í fundargerð ríkisstjórnarinnar að bankarnir mundu ef til vill falla í október 2008.