23.6.2018 11:14

Um sýn Íslendinga á utanríkis- og öryggismál

Ekkert af þessu er nýmæli fyrir þá sem hafa rætt og ritað um íslensk öryggismál árum saman.

Í vikunni var kynnt grein eftir Silju Báru Ómarsdóttur, aðjúnkts í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, í vorhefti tímaritsins Stjórnmál og stjórnsýsla sem ber fyrirsögnina: Sýn Íslendinga á utanríkis- og öryggismál. Í útdrætti er efni greinarinnar kynnt á þenna hátt:

„Afstaða Íslendinga til öryggismála hefur lítið verið rannsökuð frá því í lok kalda stríðsins. Í þessari grein eru kynntar niðurstöður könnunar um afstöðu til og hugmyndir um utanríkis- og öryggismál, en Félagsvísindastofnun HÍ vann könnunina í nóvember og desember 2016. [...] Helstu niðurstöður eru að almenningur á Íslandi telur öryggi sínu helst stafa ógn af efnahagslegum og fjárhagslegum óstöðugleika og náttúruhamförum, en telur litlar líkur á því að hernaðarátök eða hryðjuverkaárásir snerti landið beint. Þessar niðurstöður eru í takmörkuðu samræmi við helstu áherslur stjórnvalda í öryggismálum og því mikilvægt að stjórnvöld átti sig á því hvernig hægt er að tryggja það að almenningur sé meðvitaður um þær forsendur sem áhættumat og öryggisstefna grundvallast á.“

Í inngangi segir höfundur:

„Helstu niðurstöður mínar eru að almenningur á Íslandi hafi ekki mikla tilfinningu fyrir því að öryggi sínu sé ógnað. Helstu ógnir sem almenningur skynjar eru efnahags- og fjárhagslegur óstöðugleiki og náttúruhamfarir. Niðurstöður könnunarinnar sýna að ótti við vopnuð átök eða hryðjuverk er lítill meðal landsmanna. Í öryggisstefnu fyrir

Ísland er hins vegar mun meiri áhersla lögð á hernaðarlegar ógnir, þótt forgangsröðun hafi breyst nokkuð í meðförum þingsins og þá meira í átt að þeirri skynjun almennings sem birtist hér.“

Ekkert af þessu er nýmæli fyrir þá sem hafa rætt og ritað um íslensk öryggismál árum saman.

FlateyriMyndin er af vefsíðu Verkís og sýnir snjóflóðavarnir á Flateyri.

Íslensk stjórnvöld hafa gert mjög öflugar ráðstafanir til að bregðast við ótta við náttúruhamfarir. Öflug vöktun er vegna hættu á náttúruhamförum og mikið fé hefur verið lagt í snjóflóðavarnir. Komið var á fót sérstökum sjóði til að standa undir kostnaði við þær og eftir eldgosið í Vestmannaeyjum kom Viðlagasjóður til sögunnar til að bæta tjón vegna náttúruhamfara. Þá var reynslan af þeim höfð til hliðsjónar við smíði varðskipsins Þórs. Félagsfræðilegar rannsóknir hafa verið gerðar til að tryggja sem besta áfallahjálp. Stjórn aðgerða hefur verið samhæfð í sérstakri miðstöð og stofnað hefur verið til náins samstarfs opinberra aðila og björgunarsveita um viðbrögð á hættustundu.

Hernaðarlega ógnin hefur verið fjarlæg frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar vegna aðgerða sem þá voru gerðar með stofnaðild að NATO árið 1949 og varnarsamningnum við Bandaríkin árið 1951. Þessi staða breyttist síðan við hrun Sovétríkjanna árið 1991 og í um það bil aldarfjórðung fram til ársins 2014 við innlimun Rússa á Krímskaga var Norður-Atlantshafið og þar með Ísland út úr hernaðarlega öryggiskortinu, ef svo má orða það.

Á þessum árum þróaðist umræðan um utanríkis- og öryggismál hér á landi frá átakalínum kalda stríðsins og til þess að samþykkt var þjóðaröryggisstefna á alþingi og sett lög um þjóðaröryggisráð þar sem aðildin að NATO og varnarsamstarfið við Bandaríkin eru hornsteinn stefnunnar í varnarmálum, það er gæslu öryggis gagnvart öðrum þjóðum.

Um Svíþjóð er sagt að landið sé ekki lengur hlutlaust heldur utan hernaðarbandalaga, nú með þríhliða varnarsamkomulag við Bandaríkjamenn og Finna. Um Ísland má segja að landið sé herlaust í hernaðarbandalagi og allur vopnaburður þjóðinni fjarlægur. Á hinn bóginn hafa verið gerðar ráðstafanir til að lögregla hafi getu til að bregðast við hryðjuverkaárásum auk þess sem varnir gegn netárásum eru á ábyrgð íslenskra stjórnvalda. Á meðan ekki kemur til neinna vandræða á þessum sviðum beinist athygli íslensks almennings ekki að þeim sem ógnvöldum.