Um „armslengdina“ og aðrar villur
Hælbítar Bjarna Benediktssonar grípa þannig til ýmissa ráða til að sverta hlut hans í krafti álits umboðsmanns alþingis.
Þegar Steingrímur J. Sigfússon, þáv. fjármálaráðherra, kynnti frumvarp sitt um bankasýsluna 22. júní 2009 á alþingi, sagði hann meðal annars:
„Það sem hér er verið að reyna að gera er akkúrat að færa málin af hinu pólitíska borði, út úr ráðuneytinu og búa til armslengd á milli stjórnmálanna, framkvæmdarvaldsins og löggjafans þess vegna, og þeirrar framkvæmdar sem þarna á að fara fram.“
Hér fer ekkert á milli mála: „armslengdin“ var lögfest.
Oddný Harðardóttir tók við af Steingrími J. sem fjármálaráðherra og flutti frumvarp um hvernig haga ætti sölu á eignarhlut ríkisins í bönkum og þar er grunnþáttur að bankasýslan annist söluna í samræmi við lög Steingríms J. Þrátt fyrir þetta telur Oddný sér sæma að standa upp á alþingi miðvikudaginn 11. október 2023 og hefja ræðu á þessum orðum:
„Mér finnst rétt að segja þetta hér einu sinni enn: Í lögum nr. 155/2012, um sölumeðferð eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum er hvergi talað um armslengd eða heimild gefin fjármálaráðherra til að framselja vald við söluna.“
Hælbítar Bjarna Benediktssonar grípa þannig til ýmissa ráða til að sverta hlut hans í krafti álits umboðsmanns alþingis um að hann hefði „brostið hæfi“ við söluna á hlutnum í Íslandsbanka 22. mars 2022.
Bjarni hvarf úr embætti fjármála- og efnahagsráðherra vegna þess að hann virti niðurstöðu umboðsmanns og taldi virðingu fyrir eftirlitsstofnunum eina af stoðum réttarríkisins.
Þeir sem eltast við Bjarna vegna ákvörðunar hans láta eins og það sé einsdæmi að ráðherra sem talinn er vanhæfur við eitt mál hverfi í annað ráðuneyti. Fullyrðingar um þetta eru rangar eins og orð Oddnýjar um armslengdina og má nefna þessi dæmi:
Árið 2017 var Michaelia Cash, atvinnumálaráðherra Ástralíu, sökuð um vanhæfi þegar hún gerði verktakasamning við fyrirtæki sem hafði látið fé renna til flokks hennar. Hún svaraði með því að fara í annað ráðuneyti.
Árið 2018 flutti Theresa May þingflokksformann íhaldsmanna, Gavin Williamson, í ráðherrastöðu í varnarmálaráðuneytinu þegar hann sætti gagnrýni fyrir að lýsa sig ekki vanhæfan við töku ákvörðunar um skólagjöld.
Hin hlið þessa máls er frumkvæði umboðsmanns í því. Hann ber fyrir sig að almenningur hafi snúið sér til sín án þess að leggja fram nokkur gögn því til stuðnings.
Þegar rætt er um hvað gerist erlendis þegar ráðherrar eru sakaðir um vanhæfi er nauðsynlegt að kanna hvar og við hvaða aðstæður umboðsmenn þinga sjá sig knúna að skipta sér af slíkum málum með formlegri rannsókn. Dæmi um það liggja ekki fyrir en hins vegar eru fjölmörg dæmi, ekki síst norræn, um að talið er nægja að embættismenn í viðkomandi ráðuneyti fullvissi ráðherra um réttarstöðu hans, munnlega eða skriflega, eftir eðli máls.
Hér telur umboðsmaður alþingis slíka embættisfærslu ekki einu sinni fullnægjandi. Þeir vega ekki að virðingu embætta sem hlíta úrskurðum heldur hinir sem standa illa að verki í nafni embættanna.