24.5.2018 9:52

Tónmennt útrýmt úr grunnskólum Reykjavíkur

Pétur Hafþór segir að afar lítið fari fyrir dansi og leiklist í grunnskólum Reykjavíkur „og borgin virðist vinna markvisst að því að útrýma tónmennt úr grunnskólum“.

Eyþór Arnalds, oddviti sjálfstæðismanna, og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri eiga í kappræðum á síðum Morgunblaðsins í dag (24. maí) tveimur dögum fyrir kosningar. Þar er meðal annars vikið að menntamálum og Eyþór segir:

„Það er merkilegt að núna, örfáum dögum fyrir kosningar, er ekki búið að semja við Félag grunnskólakennara. Það er ekki búið að ljúka menntastefnu Reykjavíkurborgar og það er ekki búið að jafna þann kvóta sem þarf til þess að styðja við börn af erlendum uppruna. Þetta eru þrjú stórmál í grunnskólunum sem ég hefði talið að hefði átt að ljúka fyrir kosningar. En það hefur ekki tekist hjá þessari borgarstjórn. Það er dæmi um að það er mikið talað en ekki mikið klárað.“

Leikskólar og grunnskólar hvíla á herðum sveitarfélaga og sömu sögu er að segja um tónlistarskóla sem eru öflugir víða og setja mikinn og metnaðarfullan svip á mörg sveitarfélög. Í grein sem Pétur Hafþór Jónsson, fyrrv. tónmenntarkennari í Austurbæjarskólanum í Reykjavík, skrifar um listgreinar og samning þjóðarinnar um menntamál í Morgunblaðið miðvikudaginn 23. maí kemur fram að í Reykjavík er pottur brotinn þessu efni eins og of mörgum öðrum.

Pétur Hafþór segir aðalnámskrá grunnskóla samning þjóðarinnar við sjálfa sig. Samningurinn móti starfsramma skólastjóra og sveitarstjórnamanna og þeir verði að lesa hann vandlega. Skylt sé að sjá nemendum fyrir viðeigandi námstækifærum, hvernig sem á standi. Stjórnendur megi ekki fara á skjön við þennan rétt nemenda, því rétturinn sé þeirra allra. Stjórnendur, háir eða lágir, sem ekki skilji þetta, hafi ekki lesið aðalnámskrána sér til gagns.

Í henni eru 11 bls. um listgreinarnar tónmennt, myndmennt, dans og leiklist. Pétur Hafþór segir að afar lítið fari fyrir dansi og leiklist í grunnskólum Reykjavíkur „og borgin virðist vinna markvisst að því að útrýma tónmennt úr grunnskólum,“ segir hann og bætir við að hætt sé að mestu að auglýsa eftir tónmenntarkennurum. Yfirmaður grunnskólasviðs telji tónmenntarkennara ekki með í viðtölum um kennaraskort í Reykjavík. „Gott dæmi um það hvernig borgin kemst upp með að sópa skítnum undir teppið. Aldrei virðist fjölmiðlum detta í hug að sannreyna orð sviðsstjórans,“ segir í greininni og einnig:

„Í stað þess að auglýsa eftir tónmenntarkennurum eru gerðir samningar við fyrirtæki úti í bæ sem útvegar mannskap til að fylla upp í tónmenntartíma til málamynda án þess að hirða um ákvæði námskrár eða uppfylla kröfur um menntun kennara. Þetta fyrirkomulag sparar ýmis vinnutengd gjöld. Sá sparnaður er á kostnað barnanna en getur skapað fjárhagslegt svigrúm fyrir gæluverkefni skólastjóra.“

Þetta er mikill áfellisdómur yfir hvernig staðið er að málum af hálfu Reykjavíkurborgar þar sem listgreinar í skólum séu teknar „af framsæknu fagfólki“ og færðar „í hendur lausráðnum leiðbeinendum“. Þetta viðgangist enda séu eftirlitsmenn með að farið sé að námskránni „undir sama þaki og þeir sem stjórna framkvæmdinni og rekstrinum“. Pétur Hafþór spyr því: „Væri ekki best að borgin losaði sig við þetta eftirlitshlutverk og fæli það mennta- og menningarmálaráðuneytinu?“ Þá kæmi til sögunnar hlutlaust eftirlit sem tryggði „að ákvæðum laga, reglugerða og aðalnámskrár yrði fylgt og réttur nemenda virtur. Staðið yrði við samning þjóðarinnar við sjálfa sig um menntamál“.

Grein þessi sýnir enn á ný að hvert sem litið er blasir við alvarleg brotalöm við stjórn mála sem snerta hag allra Reykvíkinga.