Til varnar HS Orku hf.
Segir Innherji réttilega að engin innistæða hafi verið fyrir ummælum stjórnmálamanna um að HS Orka legði frekar áherslu á arðgreiðslur en örugga innviði. Tölurnar bendi þvert á móti til hins gagnstæða.
Í umræðum um hættuna sem snýr að eldgosunum á Reykjanesi var stundum sneitt að fyrirtækinu HS Orku vegna þess að það er eina íslenska orkufyrirtækið sem er ekki í eigu opinberra aðila. Var látið að því liggja að eigendur fyrirtækisins hefðu nýtt sér arð af rekstri fyrirtækisins á óeðlilegan hátt. Andstæðingar einkarekstrar fóru sumir mikinn í dylgjum sínum um fyrirtækið. Var meðal annars fundið að því að reistir skyldu varnargarðar um orkuver fyrirtækisins fyrir opinbert fé!
Um þetta er fjallað af Innherja viðskiptablaðs Morgunblaðsins í dag (3. apríl) og vitnað til frásagnar Viðskiptablaðsins á dögunum um úttekt Arctica Finance á arðgreiðslum og fjárfestingum HS Orku annars vegar og Landsvirkjunar og Orkuveitu Reykjavíkur (OR) hins vegar.
Úttektin sýnir „að nettó greiðslur til hluthafa HS Orku námu 2,3 milljörðum króna á fimm ára tímabili (frá 2019-23) að teknu tilliti til hlutafjárlækkunar og hluthafalána. Á sama tíma námu arðgreiðslur Landsvirkjunar 60 milljörðum króna og OR um 18 milljörðum króna. Þá nema fjárfestingar HS Orku í orkuframleiðslu tæplega 30 milljörðum króna á tímabilinu, sem er hlutfallslega mun meira en hjá Landsvirkjun og OR“.
Segir Innherji réttilega að engin innistæða hafi verið fyrir ummælum stjórnmálamanna um að HS Orka legði frekar áherslu á arðgreiðslur en örugga innviði. Tölurnar bendi þvert á móti til hins gagnstæða.
Orka náttúrunnar (ON) er eitt af dótturfélögum Orkuveitu Reykjavíkur. Eigendur Orkuveitunnar og dótturfélaga eru Reykjavíkurborg, Akranes og Borgarbyggð. ON situr nú undir ámæli fyrir brot á raforkulögum vegna sölu á raforku á hleðslustöðum í fjöleignarhúsi.
Dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur (OR) draga til sín fé frá kjarnastarfsemi fyrirtækisins eins og rakið er af Innherja í dag þegar hann bendir á að af 32 milljarða króna fjárfestingu OR undanfarin ár hafi stærsti hlutinn runnið til gagnaveitu undir heitinu Ljósleiðarinn og tilraunafyrirtækisins Carbix sem vinnur að því að binda kolefni í jörðu. Þá blóðmjólkar Reykjavíkurborg OR vegna fjárhagsvandræða sinna.
Þegar OR beinir fjármagni frá því að auka orkuframleiðslu er það ekki til þess fallið að minnka líkur á orkuskorti.
Þeim sem er tíðrætt um samfélagslegan tilgang þess að orkufyrirtæki séu í opinberri eigu ættu að rýna í hvernig OR stendur að ráðstöfun tekna sinna áður en býsnast er yfir því hvernig staðið er að rekstri HS Orku eða að reistir séu varnargarðar um orkuver Suðurnesja fyrir opinbert fé.
Vegna JK Rowling
Í gær var hér á þessum stað sagt frá því að skoska lögreglan hefði til skoðunar hvort skoski rithöfundurinn JK Rowling hefði gerst brotleg við ný skosk lög um hatursorðræðu. Til frekari upplýsingar skal þess getið að í gær komst lögreglan að þeirri niðurstöðu að svo væri ekki.