21.12.2022 9:29

Þögnin um Ljósleiðarann ehf.

Allar þessar upplýsingar liggja á lausu þótt ekki megi ræða mál Ljósleiðarans ehf. í borgarstjórn eða borgarráði. Hvers vegna þessi leyndarhjúpur? Hvaða hagsmuni er meirihluti borgarstjórnar að verja með þögninni?

Upphaf sölu Sýnar hf. á grunnneti sínu til Ljósleiðarans ehf., dótturfélags Orkuveitu Reykjavíkur, má rekja til þess að í lok júní 2022 sömdu Ljósleiðarinn og utanríkisráðuneytið um leigu Ljósleiðarans ehf. til 10 ára á tveimur af átta þráðum í ljósleiðarastreng Atlantshafsbandalagsins (NATO streng), sem liggur hringinn í kringum Ísland og til Vestfjarða.

Vegna samningsins var ljósleiðaraþráður sem Vodafone/Sýn leigði af ríkinu færður til Ljósleiðarans ehf. Til að komast hjá þjónusturofi varð Sýn annaðhvort að semja við Mílu eða Ljósleiðarann ehf. Sýn var langstærsti viðskiptavinur Ljósleiðarans með yfir helming tekna hans.

Sýn hf. og Ljósleiðarinn ehf. rituðu 5. september undir samkomulag um einkaviðræður og helstu skilmála samninga annars vegar um sölu á stofnneti Sýnar hf. til Ljósleiðarans ehf. og hins vegar drög að þjónustusamningi milli aðila til tíu ára. Var kaupverð stofnnetsins ákveði þrír milljarðar króna með fyrirvara um fjármögnun, niðurstöðu áreiðanleikakönnunar og að Samkeppniseftirlitið samþykki endanlega kaup- og þjónustusamninga. Miðað var við að endanlegir samningar lægi fyrir eigi síðar en 15. desember 2022.

Þetta gekk eftir og þriðjudaginn 20. desember undirrituðu stjórnendur Sýnar og Ljósleiðarans samning um þriggja milljarða króna kaup Ljósleiðarans á stofnneti Sýnar og 12 ára þjónustusamning milli félaganna. Þessar eignir eru bókfærðar á 564 milljónir króna hjá Sýn og því nemur söluhagnaður félagsins 2.436 milljónum sem mun bókfærast að fullu við afhendingu.

LjindexLjósleiðarinn skuldaði 14 milljarða kr. verðtryggt fyrir kaupin, nú um 17 milljarða. Innan borgarstjórnar Reykjavíkur fer meirihlutinn með það sem algjört trúnaðarmál hvernig eigi að fjármagna þessi kaup.

Fyrstu sex mánuði 2022 skilaði Ljósleiðarinn ehf. neikvæðri afkomu sem nemur 71,7 milljónum króna en á sama tíma árið 2021 var afkoma jákvæð sem nemur 134 milljónir króna.

Áfram verður tap á rekstri Ljósleiðarans ehf. vegna verðbóta og hækkandi kostnaðar. Ljósleiðarinn breytti reikningsskilum fyrir 2 árum og lækkaði afskriftir með því að gera ráð fyrir mun lengri endingartíma búnaðar en aðrir gera.

Allar þessar upplýsingar liggja á lausu þótt ekki megi ræða mál Ljósleiðarans ehf. í borgarstjórn eða borgarráði. Hvers vegna þessi leyndarhjúpur? Hvaða hagsmuni er meirihluti borgarstjórnar að verja með þögninni?

Á fundi borgarstjórnar Reykjavíkur fólst vörn framsóknarmannsins Einars Þorsteinssonar, formanns borgarráðs og starfandi borgarstjóra, í þessum orðum þegar sjálfstæðismenn kröfðust umræðna um málið:

„Mér þykir leitt að Sjálfstæðisflokkurinn sé að setja upp þetta leikrit hér í borgarstjórn. Það er ómálefnalegt og ekki í þeim anda sem við lögðum upp með í þetta ferli.“

Ómálefnalegri verður málsvörn meirihlutans ekki fyrir þagnarbindinu sem meira að segja píratar una.