22.5.2017 13:38

Þjóðaröryggisráð tekur til starfa

Nokkur tímamót urðu í dag þegar þjóðaröryggisráð kom saman í fyrsta sinn undir formennsku forsætisráðherra. Lög um ráðið voru samþykkt í september 2016.

Nokkur tímamót urðu í dag þegar þjóðaröryggisráð kom saman í fyrsta sinn undir formennsku forsætisráðherra. Lög um ráðið voru samþykkt í september 2016. Því er „ætlað að framfylgja þjóðaröryggisstefnu fyrir Ísland eins og hún er á hverjum tíma, að stefnan sé endurskoðuð reglulega og að viðeigandi samráð stjórnsýsluaðila innbyrðis og við Alþingi eigi sér farveg og fari reglulega fram. Með stofnun ráðsins er jafnframt stigið skref í þá átt að styrkja samhæfingu og, sé þjóðaröryggi ógna, að tryggja samræmd viðbrögð hlutaðeigandi viðbragðsaðila,“ segir í tilkynningu frá forsætisráðuneytinu og þar segir Bjarni Benediktsson forsætisráðherra:

,,Verkefni þjóðaröryggisráðs eru viðamikil og ég bind miklar vonir við störf þess. Við sjáum hér tækifæri til þess að skerpa boðleiðir, skilgreina verkaskiptingu enn betur og gera samstarfið enn skilvirkara. Þá blasir við að samvinna þjóðaröryggisráðs og almannavarna- og öryggismálaráðs er afskaplega mikilvæg, þar sem störf þeirar skarast í mörgum tilvikum.“

Ráðuneytið segir að fundir þjóðaröryggisráðs verði haldnir eftir því sem þurfa þykir en eigi sjaldnar en ársfjórðungslega. Ráðið skal á hverju ári upplýsa alþingi um framkvæmd þjóðaröryggisstefnunnar og upplýsa utanríkismálanefnd þingsins um hver þau mál sem líkleg eru til að hafa áhrif á þjóðaröryggisstefnuna og framkvæmd hennar. Þá skal ráðið stuðla að endurskoðun þjóðaröryggisstefnunnar eigi sjaldnar en á 5 ára fresti.

Það hlýtur að verða fyrsta verkefni ráðsins að beita sér fyrir gerð nýs áhættumats fyrir Ísland en nú er stuðst við mat frá árinu 2009. Á árunum sem liðin eru síðan hafa meiri breytingar orðið en þar var spáð þegar litið er til þróunar öryggismála á norðurslóðum.

Þá hefur einnig verið gert áhlaup á landamæri Íslands að mati dómsmálaráðherra.

Landamæravörsluna verður að auka í öllum skilningi vegna þróunarinnar. Gæslu ytra og innra öryggis verður að taka nýjum tökum.