24.3.2017 10:56

Þjóðarbúskapurinn - stóra myndin gleymist

Það er mun bjartara yfir stóru myndinni af þjóðarbúinu sem birtist í samtali okkar Ásdísar Kristjánsdóttur á ÍNN 22, mars en ætla má af daglegum umræðum. Þær mótast mest af kröfugerð á hendur stjórnmálamönnum og opinberum aðilum auk tortryggni, einkum í garð bankakerfisins og ákveðins hóps fé- og kaupsýslumanna.

Ásdís Kristjánsdóttir, forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins, var gestur minn á ÍNN miðvikudaginn 22. mars eins og sjá má hér.

Fyrir þáttinn bað ég Ásdísi til að taka saman nokkrar skýringamyndir til að auðvelda áhorfendum að átta sig betur en ella á gífurlegum breytingum sem hafa orðið á stöðu íslenska þjóðarbúsins á ótrúlega skömmum tíma. Þessar myndir eru sýndar og ræddar í fyrri hluta þáttarins en í síðari hlutanum ræðum við það sem nú er efst á baugi eftir afnám haftanna og söluna á tæplega 30% hlut í Arion banka.

Ég sagði Ásdísi í samtali okkar fyrir þáttinn að miðað við það sem áður var snúist umræður um efnahagsmál mun minna en þá um almenna stöðu þjóðarbúsins. Sjónarhornið í umræðunum sé mun þrengra en þegar Jóhannes Nordal eða Jónas Haralz lýstu stóru mynd efnahagsmálanna og veltu fyrir sér straumum og stefnum í alþjóðaviðskiptum. Umræður stjórnmálamanna mótuðust einnig af þessari stóru mynd og hvað væri skynsamlegast að gera til að sigla þjóðarskútunni af sem mestu öryggi í gegnum brimskafla og milli skerja svo að notað sé orðalag sem setti svip sinn á ræður þess tíma.

Það er mun bjartara yfir stóru myndinni af þjóðarbúinu sem birtist í samtali okkar Ásdísar en ætla má af daglegum umræðum. Þær mótast mest af kröfugerð á hendur stjórnmálamönnum og opinberum aðilum auk tortryggni, einkum í garð bankakerfisins og ákveðins hóps fé- og kaupsýslumanna.

Undir tortryggnina er ýtt á ýmsan hátt og á stjórnmálavettvangi er leitast við að nýta hana til að sverta einstaka stjórnmálamenn. Vonandi tekst að breyta þessu andrúmslofti og skapa traust. Það er brýnt viðfangsefni.

Kröfugerðarhugarfarið er erfiðara viðfangs en trúnaðarbresturinn og tortryggnin því að kröfur um stórt og smátt eiga í raun jafnan aðgang að fjölmiðlum. Er engu líkara en ekkert umkvörtunarefni í garð opinberra aðila sé svo smátt að ekki þyki ástæða til að gera frétt um það, ekki síst í ríkisútvarpinu. Þetta verður til þess að fréttatímarnir breytast í einskonar kvörtunarvettvang neytenda sem telja sig eiga rétt á einhverju frá opinberum aðilum.