15.12.2021 9:33

Þingmenn vilja kornrækt

Í tillögum og greinargerð fyrir stefnunni Ræktum Ísland! er oftar en einu sinni getið um mikilvægi kornræktar.

Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar segir að á fyrri hluta kjörtímabilsins skuli lögð fram á alþingi tillaga að landbúnaðarstefnu fyrir Ísland sem verði reist á grunni vinnu verkefnisstjórnar um landbúnaðarstefnuna Ræktum Ísland! sem birt var nokkrum vikum fyrir kosningar að lokinni víðtæku samráði og kynningu.

Í tillögum og greinargerð fyrir stefnunni Ræktum Ísland! er oftar en einu sinni getið um mikilvægi kornræktar. Hvatt er til þess að innlend framleiðsla á korni til manneldis og fyrirbúfé verði aukin. Bent er á að öryggisnet vegna uppskerubrests, þurrkstöðvar og markaður fyrir korn yrði til þess að hvetja fleiri bændur til kornræktar.

GHT15PMK0.1_1213073Á kornakri við Þorvaldseyri undir Eyjafjöllum (mbl.is).

Það er í anda þessarar stefnu að nú hafi verið flutt tillaga til þingsályktunar um eflingu kornræktar. Fyrsti flutningsmaður er Kári Gautason úr VG en meðflutningsmenn eru auk þingmanna VG úr Sjálfstæðisflokki, Framsóknarflokki, Flokki fólksins og Viðreisn: Ásmundur Friðriksson, Ásthildur Lóa Þórsdóttir, Birgir Þórarinsson, Bjarni Jónsson, Halla Signý Kristjánsdóttir, Jakob Frímann Magnússon, Jódís Skúladóttir, Orri Páll Jóhannsson, Njáll Trausti Friðbertsson, Steinunn Þóra Árnadóttir, Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Þórarinn Ingi Pétursson.

Lagt er til að sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra skipi starfshóp sem geri tillögur til þess að efla kornframleiðslu á Íslandi. Tillögurnar liggi fyrir við upphaf endurskoðunar gildandi búvörusamninga, fyrir árslok 2022.

Í greinargerð er bent á að íslenskur jarðvegur sé afar frjósamur þótt hann sé einnig viðkvæmur og rofgjarn. Auk þess séu mikil tækifæri til að bæta ræktunarmöguleika með nútímalegum plöntukynbótum, með landbótum, t.d. skjólbeltarækt, og með bættum ræktunaraðferðum. Þá er réttilega sagt að líta beri á aukna kornrækt hér á landi sem sértækan lið til að draga úr kolefnislosun í samræmi við markmið í loftslagsmálum.

Flutningsmenn tillögunnar segja að skógfræðingar og búvísindamenn hafi bent á mikla möguleika til að bæta kornræktarskilyrði með aukinni skjólbelta- og skjólskógarækt. Þá hafi verið talað um framleiðslu á ammoníaki til orkugeymslu og útflutnings úr því umframafli sem til staðar sé í íslensku raforkukerfi, megi jafnvel framleiða áburð sem til þarf í aukna kornframleiðslu með umhverfisvænum hætti hérlendis.

Því er lýst sem þekktri staðreynd úr búvísindum að opinber fjárfesting í kynbótastarfi í landbúnaði sé „ein öruggasta fjárfesting sem völ er á“. Líklegt sé að kynbætur í kornrækt borgi sig margfalt til baka. „Rétt eins og framsýn stjórnvöld um miðja síðustu öld komu að því að styðja kynbætur á íslensku búfé, styðja við rannsóknir í skógrækt og með því að kaupa framleiðslutæki fyrir sjávarútveg geta núverandi stjórnvöld með framsýni skilað ágóða áratugum saman,“ segir undir lok greinagerðarinnar.

Eins og þarna kemur fram skortir ekki rök fyrir að ýta undir kornrækt hér á landi. Víða hafa bændur náð góðum árangri við hana. Það ræðst af framtaki þeirra hvað úr verður og þess vegna er mikilvægt að líta ekki framhjá afkomuöryggi þeirra eins og áréttað er í stefnunni Ræktum Ísland! Rannsóknir og kynbætur skila engu nema bændur taki niðurstöðurnar í sínar hendur og skapi úr þeim verðmæti.