Tekist á um sóttkvíarfjötra
Nú reynir á hvort lögum verði breytt. Þingnefnd sat yfir sóttvarnalögum í vetur og vísað var til niðurstöðu hennar í úrskurði héraðsdómarans.
Bestu frásögnina af úrskurði héraðsdóms í sóttkvíarmálinu sem felldur var annan dag páska, 5. apríl, las ég á visir.is. Þar tekur Kolbeinn Tumi Daðason saman útdrátt úr 18 blaðsíðna dóminum og birtir kl. 01.05 aðfaranótt þriðjudags 6. apríl og er stuðst við hann hér. Þar segir:
„Í sóttvarnalögum er sóttvarnahús skilgreint svona:
„Staður þar sem einstaklingur, sem ekki á samastað á Íslandi eða getur að öðrum sökum ekki eða vill ekki einangra sig í húsnæði á eigin vegum, getur verið í sóttkví eða einangrun vegna gruns um að hann sé smitaður af farsótt eða ef staðfest er að svo sé.“
Lárentsínus [Kristjánsson héraðs]dómari taldi ekki hægt að segja að karlmaðurinn, hvers máls væri hér til umfjöllunar, félli undir þessa skilgreiningu. Ekki hefði verið mótmælt að karlmaðurinn ætti lögheimili á Íslandi, hefði sannarlega í hús að venda og væri viljugur til að vera í sóttkví heima hjá sér.“
Dómarinn vísaði til nýlegs nefndarálits velferðarnefndar alþingis sem hefði lagt til þessa skilgreiningu í þágu meðalhófs. Nefndin hefði einnig lagt til að sóttvarnalæknir gæti opnað sóttvarnahús eins og þörf þætti vegna farsótta. Héraðsdómur taldi óhjákvæmilegt að líta svo á að sú heimild væri bundin við sóttvarnahús eins og þau eru skilgreind að ofan.
Með hliðsjón af kröfum um meðalhóf og reglum um jafnræði borgaranna væri brýnt að skýr heimild væri til að vista fólk eins og gert væri með sóttkví í Fosshótelinu þegar um væri að ræða þá sem eiga heimili hér á landi og gætu því verið í heimasóttkví með sambærilegum hætti og aðrir landsmenn. Ákvörðun sóttvarnalæknis hefði gengið lengra en lög heimiluðu gagnvart þeim sem málið höfðaði. Því væri óhjákvæmilegt að fella úr gildi ákvörðunina um að skikka hann í sóttvarnahús enda hefði hann með fullnægjandi hætti sýnt fram á að hann gæti uppfyllt lagalegu skyldu sína um að sæta sóttkví.
Dómarinn áréttaði að engin afstaða væri tekin
til eftirlits með væntanlegri heimasóttkví viðkomandi eða skilyrðum til
aðstæðna hans þar. Einnig yrði að skoða mál hvers ferðamanns sem dveldi í
sóttvarnahúsi kysi viðkomandi að freista þess að binda enda á dvöl sína þar. Án
sérstakra málsástæðna gætu menn ekki krafist breytingar á dvalarstað sínum væru
þeim gefin fyrirmæli um dvöl í opinberu sóttkvíarhúsi.
Héaðsdómur Reykjavíkur við Lækjartorg (mynd: mbl.is/Þór).
Við útlistun á dómum ber að stíga varlega til jarðar á þetta ekki síst við fréttamenn. Í morgunfréttum ríkisútvarpsins mátti skilja fréttamann á þann veg að næstum sjálfgefið væri að sóttkvíarskylda í sóttvarnahúsi væri úr sögunni vegna úrskurðar héraðsdómarans. Rætt var við Gylfa Þór Þorsteinsson, umsjónarmann farsóttarhúsa og þessi orð féllu:
„En hvernig er það, koma gestir til ykkar í dag eða er bara búið að slaufa þessu?
„Það er ekki búið að slaufa þessu. Nú er staðan sú að fólki býðst að vera í sóttkví á þessum sóttkvíarhótelum. Það er líka íþyngjandi fyrir marga að vera í sóttkví heima. Það setur aðra heimilismenn í ákveðna hættu og setur þeim þrengri skorður.““
Enginn dregur í efa að með tillögu sinni um skylduvist sumra komufarþega í opinberu sóttvarnahúsi vilji Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir stuðla að sem bestri vörn fyrir þjóðina enda er haft eftir honum á visir.is þriðjudaginn 6. apríl: „Staðan er náttúrulega þannig að það eru mikil vonbrigði þessi niðurstaða, finnst mér, fyrir íslenska þjóð að fá þennan dóm.“
Þarna er fast að orði kveðið. Fyrir þá sem telja að virða beri réttarríkið, það er að borgarar geti treyst því að látið sé reyna á rétt þeirra fyrir dómara telji þeir á sér brotið, er þessi niðurstaða staðfesting á að fara beri að lögum við útgáfu reglna um frelsissviptingu, jafnvel á tíma farsóttar. Nú reynir á hvort lögum verði breytt. Þingnefnd sat yfir sóttvarnalögum í vetur og vísað var til niðurstöðu hennar í úrskurði héraðsdómarans. Skipta þingmenn um skoðun? Er brýnna nú en áður að herða sóttkvíarfjötra?