18.1.2020 10:46

Tekist á um excel-aðferðina í Strassborg

Það sem dómararnir í neðri deild MDE segja er að bæði þingið og ráðherrann séu bundin af excel-aðferð dómnefndarinnar, aðferð sem síðari dómnefndir hafa hafnað.

Nú dregur að því að efri deild Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE) taki fyrir landsréttarmálið svonefnda. Þar tekur íslenska ríkið til varnar að nýju í Strassborg eftir að hafa tapað málinu í neðri deild MDE. Ríkinu var upphaflega stefnt fyrir MDE vegna þess að Arnfríður Einarsdóttir landsréttardómari hefði verið ranglega skipuð er hún dæmdi í máli manns, sem ítrekað hafði ekið undir áhrifum. Hann hefði því ekki fengið réttláta málsmeðferð. Maðurinn játaði brot sitt og var sakfelldur. Hæstiréttur staðfesti dóminn og hafnaði því að sakborningurinn hefði ekki notið réttlátrar málsmeðferðar og mannréttinda. Sú niðurstaða er til meðferðar hjá MDE.

Sigríður Á. Andersen var dómsmálaráðherra þegar 15 dómarar voru skipaðir í landsrétt á grundvelli samþykktar alþingis. Nöfn þessara 15 dómara voru ekki þau sömu sem voru á lista frá dómnefnd sem fjallaði um umsækjendur og notaði excel-skjal til að komast að niðurstöðu sinni. Á þeim grunni batt dómnefndin hendur ráðherrans. Athugun hans leiddi í ljós að alþingismenn vildu ekki samþykkja listann óbreyttan. Tími til stefnu var naumur, að lokinni athugun gerði ráðherra breytingar á listanum og alþingi samþykkti hann.

771729Dómhús MDE í Strassborg.

Þeir sem teknir voru af listanum fóru í mál og taldi hæstiréttur að dómsmálaráðherra hefði ekki rannsakað hæfi einstaklinga nægilega vel við gerð tillögu um breytingu á listanum. Til þess er litið í dómi neðri deildar MDE og einnig hins að á alþingi var listinn afgreiddur í heild með einni atkvæðagreiðslu en ekki greidd atkvæði um hvern einstakling á listanum. Neðri deild MDE gerði ekkert með að hæstiréttur taldi sakborning hafa notið réttlátrar málsmeðferðar og mannréttinda og lagði þar með blessun sína yfir hæfi Arnfríðar Einarsdóttur til setu í landsrétti.

Þegar litið er á málatilbúnað og málavöxtu má auðveldlega draga þá ályktun að hér sé ekki tekist á um lögfræðilegt álitamál heldur kjósi MDE að setja átök dómsvaldsins við löggjafarvaldið og framkvæmdavaldið í þennan búning til að árétta að dómarar eða dómnefndir undir handarjaðri þeirra eigi að ráða hverjir sitja í dómarasætum.

Það er einstakt hér á landi að löggjafarvaldið, alþingi, komi að skipun manna í embætti með beinni aðild eins og í þessu máli. Ráðherrann er bundinn af meirihlutavilja alþingis í samræmi við þingræðisregluna. Það sem dómararnir í neðri deild MDE segja er að bæði þingið og ráðherrann séu bundin af excel-aðferð dómnefndarinnar, aðferð sem síðari dómnefndir hafa hafnað.

Íslenskur dómari í MDE situr bæði í neðri og efri deild MDE í þessu máli. Sérfróðir rannsakendur segjast sjá greinileg fingraför hans á meirihlutaáliti neðri deildar MDE. Hann gekk þar erinda þeirra íslensku dómara sem árum saman hafa unnið að því að sölsa valdið til að skipa dómara undir þá sjálfa. Tekist verður á um þetta í efri deildinni í MDE þegar landsréttarmálið verður þar til meðferðar. Líklega verður á brattann að sækja fyrir íslenska ríkið hvað sem öllum málsatvikum líður. Sigríði Á. Andersen hefur þegar verið hafnað sem málsaðila.