22.5.2022 10:05

Stjórnmálavæðing brottvísana

Þá einkennir málaflokkinn og umræður um hann hve auðvelt er fyrir þá sem sætta sig ekki við lögmæta niðurstöðu að gera málstað sinn að „almenningseign“ með málflutningi í fjölmiðlum.

Umræður um útlendingamál verða ekki aðeins tilfinningaríkar hér á landi heldur hvarvetna. Sett eru ákvæði í lög við framkvæmd þeirra snýst oft hópur manna gegn þeim opinbera aðila sem er stjórnskipulega skylt að framkvæma lögin.

Til að breyta þessu ferli og einnig til að koma til móts við þá sem hæst tala í nafni mannréttinda hefur víða verið leitast við að „af-stjórnmálavæða“ útlendingamálin með því að setja á stofn sjálfstæðar úrskurðarnefndir, einskonar sérdómstól. Sé niðurstaða nefndarinnar önnur en einhverjir telja að hún eigi að vera er þess krafist að ráðherra hafi niðurstöðuna að engu. Það var aldrei ætlun þessa fólks að „af-stjórnmálavæða“ neitt í þessu efni heldur taldi það sér trú um að „fagleg“ niðurstaða yrði jafnan sér í vil.

27653452Þá einkennir málaflokkinn og umræður um hann hve auðvelt er fyrir þá sem sætta sig ekki við lögmæta niðurstöðu að gera málstað sinn að „almenningseign“ með málflutningi í fjölmiðlum og höfða þar til tilfinninga til að fá niðurstöðunni hnekkt.

Fréttamenn, Rauði krossinn og ýmis almannasamtök gerast þátttakendur í stað þess að standa álengdar sem hlutlausir „fagaðilar“. Fréttastofa ríkisútvarpsins birtir til dæmis oft einhliða málflutning Magnúsar D. Norðdahls lögfræðings gegn niðurstöðu úrskurðarnefndarinnar og framkvæmd dómsmálaráðherra á henni. Fyrir nokkru kom í ljós að úrskurðarnefndin miðlaði sérstaklega og hratt niðurstöðum sínum til valins hóps lögfræðinga svo að hann gæti sem fyrst brugðist við ákvörðunum nefndarinnar og hafið opinbert andóf gegn þeim væri talin ástæða til þess.

Þegar Magnús D. Norðdahl kveður sér nú hljóðs um þessi mál er hann að „endur-stjórnmálavæða“ þau. Hann var í framboði fyrir Pírata í NV-kjördæmi fyrir þingkosningarnar 25. september 2022 og reyndi árangurslaust ásamt öðrum að fá úrslitunum hnekkt vegna talningarklúðurs. Marklausar upphrópanir hans og ásakanir voru álíka háværar og nú, þegar hann sem nýkjörinn borgarfulltrúi Pírata, krefst þess í fréttum að hætt verði við framkvæmd á brottvísunum ólöglegra innflytjenda.

Af því hvernig sumir tala sem mótmæla framkvæmd útlendingalaga um brottvísun mætti ætla að dómsmálaráðherra og lögregla hefðu engar lagaskyldur vegna þeirra. Falli þessar skyldur ekki að viðhorfi gagnrýnenda eru þær kenndar „þjóðernishyggju í ætt við fasisma“ svo að vitnað sé í Reyni Traustason, ritstjóra Mannlífs.

Breytingar á útlendingalögunum eru nú til umræðu á alþingi, stjórnarfrumvarp. Í umræðum um það á alþingi mánudaginn 16. maí skýrði dómsmálaráðherra frá því að hefði lagt til að umboðsmanni alþingis yrði falið eftirlit með framkvæmd lögreglu á brottvísunum og frávísunum. Með því yrði umgjörðin í kringum framkvæmd þessara mála styrkt enn frekar ásamt því að tryggja að réttindi útlendinga í þessari stöðu væru virt.

Með þessum orðum áréttar dómsmálaráðherra virðingu fyrir „faglegum“ aðferðum við úrlausn útlendingamála. Gagnrýnendur hans vegna brottvísananna gefa, þegar á reynir, ekkert fyrir lög í þessu efni.